Mjög stormasamt var á landinu í gærkvöldi og nótt og fór vindhraði m.a. í hviðum í Skarðsdal á Siglufirði í 51,9 m/s og á Vaðlaheiði sömuleiðis í yfir 51 m/s. Mjög hlýtt loft fór yfir landið í nótt og mældist hiti á Eskifirði rétt eftir miðnætti 14,3 stig sem er mjög nærri dægurmeti 10. mars.
Hæsta hitatala sem er færð á þann dag er 14,5 stig á Haugi í Miðfirði 2004 - en þar mun vera um svokallað tvöfalt hámark að ræða, leifar frá hlýjum gærdegi - en þann dag fór hiti í 15,2 stig á Siglunesi. Mestur hiti sem skráður er á þann 11. er líka 14,5 stig. Það var á Akureyri 1953, skrifar Trausti Jónsson, veðurfræðingur, á bloggi sínu.
Á vef skíðasvæðisins í Skarðsdal á Siglufirði segir frá því að kl. 00.54 í nótt hafi vindhraði í hviðu mælst 51,9 m/sek og er þetta mesti vindur sem sést hefur á mælum á skíðasvæðinu. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands mældist vindur t.d. um 51 m/s á svipuðum tíma á Vaðlaheiði í nótt. Segir vakthafandi veðurfræðingur að slíkur vindhraði sé vissulega frekar óvenjulegur. Stormasamt var víða um land í gærkvöldi og í nótt.