Sló Íslandsmetið á þrjóskunni

Jóhanna Júlía Júlíusdóttir tók hvorki meira né minna en 177 …
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir tók hvorki meira né minna en 177 armbeygjur og setti Íslandsmet í Skólahreysti. Af vef Skólahreystis

„Ég er búin að vera á mikl­um æf­ing­um en ég bjóst samt ekki við þessu,“ seg­ir Jó­hanna Júlía Júlí­us­dótt­ir, nem­andi í Myllu­bakka­skóla í Reykja­nes­bæ, sem sló Íslands­met í arm­beygj­um í Skóla­hreysti í síðustu viku þegar hún tók hvorki meira né minna en 177 arm­beygj­ur.

Jó­hanna seg­ist hafa ætlað sér að bæta fyrra Íslands­metið, sem var 107 arm­beygj­ur, en hún hafi þó ekki bú­ist því að bæta það jafn mikið og raun bar vitni. „Ég er á sundæf­ing­um og síðan æfi ég þrek þris­var í viku en þá er ég að gera allskon­ar þrek og eitt­hvað af arm­beygj­um,“ seg­ir Jó­hanna en hún æfir sund 8-12 sinn­um í viku hjá Íþrótta­banda­lagi Reykja­nes­bæj­ar (ÍRB).

Hún seg­ir sundið vera góðan und­ir­bún­ing fyr­ir Skóla­hreysti. „Já, maður verður að vera rosa­lega sterk­ur í sund­inu,“ seg­ir Jó­hanna og bend­ir einnig á að sundið styrki all­an lík­amann. Aðspurð hvernig hún hafi tíma fyr­ir svona mikl­ar æf­ing­ar seg­ir Jó­hanna að slíkt krefj­ist þess ein­ung­is að maður skipu­leggi sig vel.

„Til­finn­ing­in var al­veg rosa­lega góð. Ég var orðin þreytt eft­ir 40 arm­beygj­ur og svo fékk ég mik­inn stuðning frá skól­an­um og fólki í saln­um,“ seg­ir Jó­hanna aðspurð hvernig sér hafi liðið eft­ir að hún sló Íslands­metið. Jó­hanna seg­ist hafa verið orðin afar hrædd um að geta ekki meir eft­ir 40 arm­beygj­ur, hún seg­ist ekki vita hvernig hún gat haldið áfram, hún hafi ef­laust gert það á þrjósk­unni. „Ég ætlaði fyrst að fara upp í 130 en ég gerði aðeins meira,“ seg­ir Jó­hanna sem lagði áherslu á það að hún hefði viljað að nýja metið væri ör­uggt.

Jó­hanna stund­ar nám í 10. bekk í Myllu­bakka­skóla í Reykja­nes­bæ og stefn­ir að eig­in sögn á að hefja að því loknu nám við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja. For­eldr­ar henn­ar eru þau Guðrún Bene­dikts­dótt­ir og Júlí­us Friðriks­son. Að sögn Guðrún­ar eru þau bæði „al­veg ofboðslega“ stolt af dótt­ur sinni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert