Sló Íslandsmetið á þrjóskunni

Jóhanna Júlía Júlíusdóttir tók hvorki meira né minna en 177 …
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir tók hvorki meira né minna en 177 armbeygjur og setti Íslandsmet í Skólahreysti. Af vef Skólahreystis

„Ég er búin að vera á miklum æfingum en ég bjóst samt ekki við þessu,“ segir Jóhanna Júlía Júlíusdóttir, nemandi í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, sem sló Íslandsmet í armbeygjum í Skólahreysti í síðustu viku þegar hún tók hvorki meira né minna en 177 armbeygjur.

Jóhanna segist hafa ætlað sér að bæta fyrra Íslandsmetið, sem var 107 armbeygjur, en hún hafi þó ekki búist því að bæta það jafn mikið og raun bar vitni. „Ég er á sundæfingum og síðan æfi ég þrek þrisvar í viku en þá er ég að gera allskonar þrek og eitthvað af armbeygjum,“ segir Jóhanna en hún æfir sund 8-12 sinnum í viku hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB).

Hún segir sundið vera góðan undirbúning fyrir Skólahreysti. „Já, maður verður að vera rosalega sterkur í sundinu,“ segir Jóhanna og bendir einnig á að sundið styrki allan líkamann. Aðspurð hvernig hún hafi tíma fyrir svona miklar æfingar segir Jóhanna að slíkt krefjist þess einungis að maður skipuleggi sig vel.

„Tilfinningin var alveg rosalega góð. Ég var orðin þreytt eftir 40 armbeygjur og svo fékk ég mikinn stuðning frá skólanum og fólki í salnum,“ segir Jóhanna aðspurð hvernig sér hafi liðið eftir að hún sló Íslandsmetið. Jóhanna segist hafa verið orðin afar hrædd um að geta ekki meir eftir 40 armbeygjur, hún segist ekki vita hvernig hún gat haldið áfram, hún hafi eflaust gert það á þrjóskunni. „Ég ætlaði fyrst að fara upp í 130 en ég gerði aðeins meira,“ segir Jóhanna sem lagði áherslu á það að hún hefði viljað að nýja metið væri öruggt.

Jóhanna stundar nám í 10. bekk í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ og stefnir að eigin sögn á að hefja að því loknu nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Foreldrar hennar eru þau Guðrún Benediktsdóttir og Júlíus Friðriksson. Að sögn Guðrúnar eru þau bæði „alveg ofboðslega“ stolt af dóttur sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert