Stjórnlagaráð lýkur störfum í dag

Stjórnlagaráð fundar í Kennaraháskólanum.
Stjórnlagaráð fundar í Kennaraháskólanum. mbl.is/Golli

Stjórnlagaráð mun ljúka störfum sínum klukkan 18.00 í dag samkvæmt tímatöflu en ráðið kom saman á ný síðastliðinn fimmtudag til þess að ræða, og loks svara, þeim spurningum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur beint til ráðsins varðandi drög að nýrri stjórnarskrá sem ráðið skilaði af sér til Alþingis þegar það lauk störfum sínum síðastliðið sumar.

„Við stefnum að því að fara yfir allar þær spurningar sem beint var til okkar og svara þeim,“ segir Ómar Ragnarsson, fulltrúi í stjórnlagaráði. Að sögn Ómars stefnir ráðið að því að skila svörum sínum til Alþingis á morgun. „Við erum búin að vinna mjög skipulega núna og ég sé ekkert í spilunum sem getur breytt því að við skilum þessu verki af okkur á morgun og ljúkum okkar störfum um sexleytið í dag,“ segir Ómar spurður út í það hvenær ráðið skili Alþingi svörum sínum.

Spurður út í svör stjórnlagaráðs við spurningum þeim sem Alþingi hefur beint til ráðsins segir Ómar: „Við teljum eftir sem áður að okkar tillaga frá því í fyrra standi, hún er það eina sem stjórnlagaráð hefur formlega, heilt og skýrt, afgreitt og þessi yfirferð okkar núna hefur ekki leitt í ljós að það sé neinn svo alvarlegur ágalli á því frumvarpi að stjórnarskrá að það sé ekki hægt að samþykkja það,“ segir Ómar sem bætir síðan við: „En við erum núna að reyna að búa til valkosti sem eru þess eðlis að knappari og skýrari texti geti verið á sumum stöðum eða hugsanlega einhverjar stærri breytingar sem ekki hagga megingrundvallarforsendum stjórnarskrárfrumvarpsins sem við skiluðum í fyrra.“

Ómar Ragnarsson, fulltrúi í stjórnlagaráði.
Ómar Ragnarsson, fulltrúi í stjórnlagaráði. Gúndi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert