„Engar áhyggjur“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, í landsdómi í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, í landsdómi í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði við vitnaleiðslur í Landsdómi í dag að hún hefði talið að bankarnir hefðu lært af míníkrísunni árið 2006. 

„Ég, eins og aðrir, trúði því að þetta hefði verið lexía fyrir bankana, þeir hefðu látið þetta sér að kenningu verða og tekið til hjá sér.“

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari sagði að eitt af sakarefnunum á hendur Geir H. Haarde væri að hann hefði getað brugðist við með öðrum hætti til að afstýra hættu á hruni bankanna. Hún bað Ingibjörgu Sólrúnu að gera grein fyrir hvort hún hefði talið að hætta vofði yfir íslensku bönkunum.

„Það hafði verið ljóst frá 2000-2007 að bankarnir höfðu stækkað gríðarlega. Þegar þarna var komið voru þeir níföld þjóðarframleiðsla,“ sagði Ingibjörg Sólrún. Hún sagðist ekki hafa haft áhyggjur af stöðu bankanna fyrr en um áramótin 2007-2008 og hefði ekki vitað af því að bankarnir hefðu verið hársbreidd frá því að falla árið 2006 fyrr en hún las bók Styrmis Gunnarssonar um hrunið.

„Ég vissi það ekki fyrr en hrunið var orðið að veruleika,“ sagði Ingibjörg Sólrún. Hún sagði að í alþingiskosningunum 2007 hefði engin umræða verið um stöðu bankanna. „Það voru engar áhyggjur af þeim á þessum tíma,“ sagði hún.

Ingibjörg Sólrún sagði að áhyggjur sínar hefðu vaknað um áramótin 2007-2008 þegar Kaupþing hóf yfirtöku á HNBC-bankanum. „Þeir sáu auðvitað að þetta gat ekki gengið, en gátu ekki snúið aftur án tilstuðlanar opinberra aðila.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka