Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út að Bíldshöfða laust eftir klukkan níu í morgun, en þar hafði komið uppi eldur í strætisvagni. Rúmlega tíu farþegar voru í vagninum. Þeir komust allir út ómeiddir.
Bílstjóri strætisvagnsins var að koma að gatnamótum við Bílshöfða þegar hann fann að eitthvað var að. Hann drap á vagninum, en skömmu síðar gaus upp mikill eldur aftast í honum.
Kona sem sat aftarlega í vagninum segist hafa fundið reykjarlykt. Þegar farþegarnir áttuðu sig á að eldur var laus í bílnum forðuðu þeir sér allir út. Konan segir að skömmu síðar hafi orðið sprenging. Slökkviliðinu gekk vel að slökkva eldinn en strætisvagninn er mjög mikið skemmdur.