Funduðu heima hjá Geir

Sigurjón Þ. Árnason bíður eftir því að taka sæti í …
Sigurjón Þ. Árnason bíður eftir því að taka sæti í Landsdómi í dag. Kristinn Ingvarsson

Sigurjón J. Árnason, fv. bankastjóri Landsbanka Íslands, var í góðu sambandi við Geir H. Haarde, fv. forsætisráðherra, á árinu 2008 og áttu þeir nokkra fundi um stöðu efnahagsmála. Sigurjón telur Geir hafa brugðist rétt við aðsteðjandi vá í fjármálakerfinu.

Sigurjón lýsti þessum samræðum fyrir Landsdómi í dag.

„Það var einn formlegur fundur þar sem voru allir bankastjórarnir í febrúar. Það voru reyndar fleiri fundir. Svo fórum við Halldór [J. Kristjánsson, fv. bankastjóri Landsbankans] í forsætisráðuneytið og töluðum við hann. Ég held að ég hafi farið tvisvar heim til hans ... Við búum í sömu götu ... Þetta var á persónulegum nótum.

Við ræddum stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ sagði Sigurjón og vék að þörfinni fyrir að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands á þessum tíma. „Hann var orðinn hlutfallslega mjög lítill miðað við bankakerfið ... Margir erlendir aðilar fjölluðu um þetta. Það þýddi að það var mjög mikilvægt að styrkja varaforða Seðlabankans. Þetta var ekki spurning um að nota forðann heldur snerist það um að geta sýnt hann. Það var það sem skipti máli,“ sagði Sigurjón um samskiptin við þáverandi forsætisráðherra og umræður um varaforðann.

Alþjóðleg kreppa skall á

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, benti á að málið gegn Geir væri á því reist að hinum ákærða hafi láðst að grípa til aðgerða gegn aðsteðjandi hætta. Spurði hún svo Sigurjón hvort hann mæti atburðarásina á þennan veg. 

„Það var augljóst að það var alþjóðleg fjármálakreppa um allan heiminn. En hvað Geir gat gert í því er allt annað mál,“ sagði Sigurjón sem lýsti því síðar yfir við skýrslugjöfina að það hefði verið rétt af Geir að stuðla ekki að inngripi ríkisins í fjármálakerfinu.

Sigríður spurði þá hvernig Landsbankamenn hefðu metið stöðuna fram undir árið 2008.

„Menn höfðu auðvitað áhyggjur af ástandinu og menn reyndu að styrkja stöðu sína með ýmsum hætti,“ sagði Sigurjón og nefndi hvernig bankinn hefði sótt sér laust fé með svokölluðum endurhverfum viðskiptum þegar ljóst var að sala eigna yrði erfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert