„Geir var skynsamur“

Sigurjón Þ. Árnason í dómsalnum í dag. Geir og verjandi …
Sigurjón Þ. Árnason í dómsalnum í dag. Geir og verjandi hans, Andri Árnason, eru við sæti sín. Rax / Ragnar Axelsson

„Það voru engar formlegar aðgerðir ef þú ert að fjalla um það. Ég held að Geir hafi verið svo skynsamur að átta sig á því að þetta var ekki raunhæfur kostur,“ sagði Sigurjón Þ. Árnason, fv. bankastjóri Landsbanka Íslands, um svigrúm fv. forsætisráðherra til að minnka bankakerfið.

„Það hefði ekki hjálpað,“ sagði Sigurjón um mat sitt á inngripum ríkisins til að minnka bankakerfið.

„Það verður að vera hægt að framkvæma það sem um er beðið. Það er lykilforsenda. Ef þeir hefðu sett kvaðir á okkur er ekki víst að það hefði hjálpað til ... Ég held jafnvel að það hefði getað orðið til óþurftar,“ sagði Sigurjón.

Sigurjón lýsti því hvernig hann liti svo á að svokölluð míníkrísa á árinu 2006 hefði aðeins verið ímyndarkreppa en að síðan hefði alþjóðleg kreppa gengið í garð.

Eftir yfirtöku bandaríska ríkisins á Bear Stearns hefðu menn talið að það versta væri yfirstaðið þegar lausafjárvandi bankanna á árinu 2007 var annars vegar.

„Það var mikill viðsnúningur þegar Bear Stearns var tekinn yfir og í einhverjum skilningi bjargað ... Þá varð sú skoðun almenn að ... þessir stóru aðilar mundu passa upp á kerfið og í framhaldi byrjaði þessi lausafjárkreppa að sjatna mjög mikið.“

Sigurjón rakti síðan hvernig hann hefði unnið „baki brotnu allar helgar og öll kvöld ... en þarna í júní fór maður í frí vegna þess að maður taldi að aðstæður hefði breyst svo mikið á markaði“, sagði bankastjórinn um tilfinningu sína fyrir stöðunni á mörkuðum sumarið 2007.

„Það var skortur á erlendu lausafé, ekki lausafé,“ sagði Sigurjón um stöðuna árið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert