Legið hefur ljóst fyrir frá því lög um gjaldeyrishöft voru sett að meginmarkmið þeirra er að koma í veg fyrir að menn geti losað stöður sínar í íslenskum krónum fyrr en ella. Þegar menn finna leiðir framhjá höftunum mega þeir eiga von á að löggjafinn bregðist við. Þetta sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Helgi mælti fyrir nefndaráliti meirihluta nefndarinnar en niðurstaða hennar er að samþykkja beri frumvarpið, með þeim fyrirvara að hugsanlega verði lagðar til breytingar á frumvarpinu á milli annarrar og þriðju umræðu.
Í frumvarpinu er lagt til að tilteknar fjármagnshreyfingar á milli landa, sem verið hafa heimilar til þessa, verði takmarkaðar. Undanþágurnar sem um ræðir eru almenn undanþáguheimild til útgreiðslna í íslenskum krónum úr innlendum þrotabúum til erlendra aðila, sérstök undanþáguheimild búa föllnu fjármálafyrirtækjanna til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri, sem m.a. gerir föllnu fjármálafyrirtækjunum mögulegt að greiða kröfuhöfum sínum í erlendum gjaldeyri, og að síðustu undanþáguheimild til að skipta jafngreiðslum og verðbótum af höfuðstól skuldabréfa.
Fulltrúar Seðlabankans sem á fund nefndarinnar komu vöktu athygli á því að viðskipti með svokölluð jafngreiðslubréf Íbúðalánasjóðs (HFF) bentu til þess að markaðsaðilar væru að koma sér undan höftunum. Það eitt og sér væri verulegt áhyggjuefni en jafnframt það að teikn væru um að í undirbúningi væri útgáfa annarra sambærilegra skuldabréfaflokka.
Helgi sagði að verið væri að fella brott undanþágur. Almennar reglur gildi áfram. Allra leiða hafi verið leitað til að koma í veg fyrir menn geti losað stöður sína í íslenskum krónum fyrr en ella. Það kemur ekki af góðu, en er neyðarúrræði. En ef gjöldin halda ekki, þannig að trúverðugt sé, þá muni það hafa í för með sér verulega alvarlega og djúpstæða erfiðleika sem ekki aðeins bitna á íslensku samfélagi en einnig þeim sem eiga inni kröfur.
Hann sagði það að fella burtu undanþágu ekki rýra eignarrétt neinna. Hins vegar verði að koma í veg fyrir að umræddar undanþágur grafi undan áætlun um losun fjármagnshafta og valdi alvarlegum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sem aftur geti leitt til verulegrar gengislækkunar krónunnar.
Fulltrúar slitastjórna gömlu bankanna sem komu á fund nefndarinnar lýstu áhyggjum af áhrifum frumvarpsins sem þeir töldu óljós og til þess fallinn að rýra traust kröfuhafa gagnvart slitaferlinu. Töldu þeir að sú neyð sem lægi að baki framlagningu frumvarpsins væri ekki nægilega rökstudd, ekki síst með tilliti til þeirra neikvæðu áhrifa sem það gæti haft á erlendar eignir bankanna og innstæður þeirra hjá Seðlabanka Íslands.
Helgi sagði að enn væri verið að fara yfir þau mál og hugsanlegt væri að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu á milli annarrar og þriðju umræðu síðar í kvöld. Hann sagðist vona að hann gæti kynnt þær breytingatillögur við þriðju umræðu, sem þrengi svið frumvarpsins þannig að slitastjórnin geti fallist á það.