Fréttaskýring: Herða reglur um nýju fararskjótana

Í nýjum drögum að umferðarlögum sem væntanlega verða lögð fyrir Alþingi á næstu dögum eru verulegar breytingar gerðar á skilgreiningu á léttum bifhjólum og á reiðhjólum. Þeir sem eiga rafmagnshjól eða svokallaðar rafmagnsvespur ættu að gefa þessu máli sérstakan gaum.

Frumvarp til breytinga á umferðarlögum verður nú lagt fyrir Alþingi í þriðja sinn frá árinu 2009 en málið hefur ekki verið útrætt á þingi. Nokkrar breytingar eru gerðar á frumvarpinu frá fyrri gerð og m.a. bætt inn ákvæði um innanríkisráðherra geti veitt sveitarfélögum í þéttbýli heimild til að innheimta gjald vegna brota á reglum um hámarksökuhraða þegar brotið er numið í löggæslumyndavél. Lögregla hefur hingað til ein haft slíkar heimildir.

Reiðhjól verða bifhjól

Eins og þeir vita sem nota göngu- og hjólreiðastíga borgarinnar hafa margir á undanförnum árum fest kaup á rafmagnsvespum eða öflugum rafmótorum sem settir eru á venjuleg reiðhjól. Nýju frumvarpsdrögin, verði þau að lögum, munu hafa veruleg áhrif á þá sem nota þessa fararskjóta.

Í núgildandi umferðarlögum falla rafmagnsvespur, sem ná allt að 25 km hraða, undir sömu reglur og reiðhjól. Þar með gilda engin aldurstakmörk um notkun á vespunum, ekki hjálmaskylda nema fyrir yngri en 15 ára og engin skylda til að sækja námskeið. Verði frumvarpið samþykkt munu rafmagnsvespurnar ekki lengur flokkast sem reiðhjól heldur sem létt bifhjól í flokki I. Skilgreiningin á léttu bifhjóli er eftirfarandi: „Vélknúið ökutæki á tveimur eða þremur hjólum með sprengirými ekki yfir 50 cm³ eða með rafgeymi og ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. Létt bifhjól greinast í létt bifhjól í flokki I sem ekki er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst.“

Til þess að mega stjórna léttu bifhjóli í flokki I, þ.m.t. rafmagnsvespum, verður ökumaður að vera 15 ára og hafa hlotið tilskilda þjálfun og hafa staðist ökupróf. Í frumvarpinu er kveðið á um að léttu bifhjólunum megi aka á götum með 50 km hámark, á hjólastíg, hjólarein og á öðrum vegum sem eru sérstaklega merktir til aksturs slíkra bifhjóla. Ekki verður annað ráðið af frumvarpinu en að áfram verði heimilt að aka þeim á göngustígum.

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að hér sé að nokkru tekið mið af dönskum umferðarlögum að þessu leyti.

Stígi með mótornum

Í núgildandi umferðarlögum eru rafmagnsreiðhjól ekki skilgreind sérstaklega en með nýja frumvarpinu verður breyting þar á. Þar segir að ákvæði um hjólreiðar gildi einnig um hjól með stig eða sveifarbúnaði „þar sem samfellt hámarksafl er 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km/klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.“

Morten Lange, sem á sæti í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna, segir að stjórnin styðji breytingarnar, bæði hvað varðar rafvespurnar og rafhjólin, einkum að því leytinu að þau tæki sem flokkist sem reiðhjól eigi að hafa eiginleika reiðhjóls en ekki mun öflugri tækja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka