Hlutverk sjávarorku lítið næstu áratugi

Brim við Þorlákshöfn.
Brim við Þorlákshöfn. Rax / Ragnar Axelsson

Ólíklegt er að sjávarorka gegni stóru hlutverki í orkubúskap Íslendinga á næstu áratugum. Þetta er mat forstjóra Landsvirkjunar, sem telur að áður yrði kastvarmi og lághitasvæði nýtt.

Þetta kemur fram í umsögn Landsvirkjunar, sem forstjórinn Hörður Arnarson skrifar undir, um tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku.

Í umsögninni segir meðal annars: „Ísland er auðugt af bæði jarðvarma og vatnsorku sem hægt er að virkja með hagkvæmum hætti til að sjá fyrir þörf landsmanna fyrir rafmagni. Kastvarmi og lághitasvæði yrðu væntanlega nýtt áður en til þess kemur að beisla sjávarorku í einhverjum mæli. Auk þess er talið að aðstæður til að virkja vind séu hagstæðar.“

Í tillögunni er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra verði falið að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands, með áherslu á greiningu nýtingarkosta á þeim svæðum sem ætla megi að uppfylli hagkvæmiskröfur. „Í ljósi þess hve tækniþróun er skammt komin og upplýsingar um kostnað litlar telur Landsvirkjun að erfitt yrði að gera slíkt mat á þessu stigi,“ segir í umsögninni.

Þó er á það bent, að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir þeim tækifærum sem kunni að felast í nýtingu sjávarorku. Þá með því að bera saman aðstæður hér á landi við það sem best gerist annars staðar. „Það má gera með því að taka saman upplýsingar sem ætla má að Hafrannsóknastofnun o.fl. aðilar búi yfir, fylgjast með tækniþróun á þessu sviði en síðast en ekki síst stuðla að því að einkaaðilar og orkuvinnslufyrirtækin geri forathuganir á svæðum þar sem aðstæður eru taldar góðar.“

Að endingu segir að Landsvirkjun hafi samþykkt að gerast aðili að einu slíku fyrirtæki.

Tillagan í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka