Hlutverk sjávarorku lítið næstu áratugi

Brim við Þorlákshöfn.
Brim við Þorlákshöfn. Rax / Ragnar Axelsson

Ólík­legt er að sjáv­ar­orka gegni stóru hlut­verki í orku­bú­skap Íslend­inga á næstu ára­tug­um. Þetta er mat for­stjóra Lands­virkj­un­ar, sem tel­ur að áður yrði kast­varmi og lág­hita­svæði nýtt.

Þetta kem­ur fram í um­sögn Lands­virkj­un­ar, sem for­stjór­inn Hörður Arn­ar­son skrif­ar und­ir, um til­lögu til þings­álykt­un­ar um rann­sókn­ir á um­fangi og nýt­ing­ar­mögu­leik­um sjáv­ar­orku.

Í um­sögn­inni seg­ir meðal ann­ars: „Ísland er auðugt af bæði jarðvarma og vatns­orku sem hægt er að virkja með hag­kvæm­um hætti til að sjá fyr­ir þörf lands­manna fyr­ir raf­magni. Kast­varmi og lág­hita­svæði yrðu vænt­an­lega nýtt áður en til þess kem­ur að beisla sjáv­ar­orku í ein­hverj­um mæli. Auk þess er talið að aðstæður til að virkja vind séu hag­stæðar.“

Í til­lög­unni er gert ráð fyr­ir að iðnaðarráðherra verði falið að hefja vinnu við mat á um­fangi og nýt­ing­ar­mögu­leik­um sjáv­ar­orku við strend­ur Íslands, með áherslu á grein­ingu nýt­ing­ar­kosta á þeim svæðum sem ætla megi að upp­fylli hag­kvæmis­kröf­ur. „Í ljósi þess hve tækniþróun er skammt kom­in og upp­lýs­ing­ar um kostnað litl­ar tel­ur Lands­virkj­un að erfitt yrði að gera slíkt mat á þessu stigi,“ seg­ir í um­sögn­inni.

Þó er á það bent, að mik­il­vægt sé að gera sér grein fyr­ir þeim tæki­fær­um sem kunni að fel­ast í nýt­ingu sjáv­ar­orku. Þá með því að bera sam­an aðstæður hér á landi við það sem best ger­ist ann­ars staðar. „Það má gera með því að taka sam­an upp­lýs­ing­ar sem ætla má að Haf­rann­sókna­stofn­un o.fl. aðilar búi yfir, fylgj­ast með tækniþróun á þessu sviði en síðast en ekki síst stuðla að því að einkaaðilar og orku­vinnslu­fyr­ir­tæk­in geri for­at­hug­an­ir á svæðum þar sem aðstæður eru tald­ar góðar.“

Að end­ingu seg­ir að Lands­virkj­un hafi samþykkt að ger­ast aðili að einu slíku fyr­ir­tæki.

Til­lag­an í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert