Íbúðalánasjóður átti 20. febrúar sl. samtals 1.751 íbúð. Þar af eru 707 í leigu, að mestu til aðila sem bjuggu í eignunum þegar sjóðurinn eignaðist þær. Samtals eru 255 eignir óíbúðarhæfar en mestur hluti þeirra er ófullgerður.
Þetta kom fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns um íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs.
Í svarinu segir að 91 íbúð hafi nýlega komist í eigu sjóðsins og er enn verið að vinna að gerð leigusamninga við þá aðila sem þar búa.
Af þessum eignum sjóðsins eru flestar íbúðirnar á Suðurnesjum eða 529. Þetta er næstum þriðjungur af öllum íbúðum sjóðsins. Íbúðalánasjóður á 340 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.