Frumvarp til breytinga á lögum um gjaldeyrishöft verður lagt fram á Alþingi í dag og er gert ráð fyrir að það fái hraðferð í gegnum þingið þannig að það verði orðið að lögum áður en markaðir verða opnaðir í fyrramálið. Frumvarpinu er ætlað að setja fyrir leka á gjaldeyrishöftum.
Þingflokkar voru óvænt boðaðir til þingflokksfunda laust eftir kl. 16 í dag. Á fundunum var frumvarpið kynnt. Óskað var eftir því við stjórnarandstöðuna að hún greiddi fyrir því að frumvarpið færi hratt í gegnum þingið.
Búið er að boða fund í efnahags- og viðskiptanefnd, en fyrirhugað er að nefndin leggi frumvarpið fram. Nefndin hefur hins vegar ekkert komið að undirbúningi málsins og frétti fyrst af málinu síðdegis í dag.
Mikil áhersla var lögð á það af hálfu stjórnvalda að ekkert fréttist af málinu fyrr en eftir að fjármálamörkuðum yrði lokað kl. 16 í dag. Stefnt er að því að frumvarpið verði að lögum í kvöld.
Öflugt eftirlit er með framkvæmd laga um gjaldeyriseftirlit, en nú hefur komið í ljós að þau „leka“, eins og kallað er. Fyrir þann leka á að setja með nýjum lögum.