Lögðust gegn flutningi Icesave

Landsdómur
Landsdómur mbl.is/Hjörtur

Ef breska fjármálaeftirlitið hefði samþykkt flutning Icesave-reikningana yfir í breskt dótturfélag á almanaksárinu 2008 samkvæmt þeim skilmálum sem Landsbankinn fór fram á hefði fyrri hluti þeirra flutninga verið vel framkvæmanlegur. Þetta er mat Halldórs J. Kristjánssonar, fyrrv. bankastjóra Landsbankans, sem gefur nú skýrslu fyrir Landsdómi.

Mjög illa heyrist í Halldóri vegna slæms símasambands en ekki verður betur heyrt en að samkomulagið sem hann gerði að umtalsefni og breska fjármálaeftirlitið tók dræmt í hefði falið í sér flutning eigna á móti innlánunum í tveim skrefum, 50% á árinu 2008 og sama hlutfall á árinu 2009.

„Ég lít svo á að fyrri hluti flutninganna hefði átt að takast ... á almanaksárinu 2008,“ sagði Halldór.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, spurði Halldór út í áformin um flutning reikninganna.

Rifjaði Halldór þá upp að viðræðurnar við breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefðu hafist þegar rætt var um að sameina útibú og dótturfélög. Síðan hafi eftirlitið virst skipta um skoðun. „Þeir vildu ekki halda þeim viðræðum áfram... Þetta fannst mér mjög miður,“ sagði Halldór um skort á stuðningi Breta við tillögur um að setja Icesave í dótturfélag.

„Þeir [Bretarnir] þurftu að vera aðilar að því... Það var ekki hægt að ná því fram nema með aðild Breta eða samþykki þeirra.“

Mátti svo skilja á framburði Halldórs að breska fjármálaeftirlitið hefði aðeins verið tilbúið að samþykkja 10% flutningshlutfall á almanaksári 2008 og sama hlutfall 2009, en hlutfallið er mælikvarði á verðmæti eigna miðað við höfuðstól innlána á Icesave.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert