Mjög erfitt var finna góða lausn á þeim vanda sem bankarnir glímdu við vegna smæðar íslenska markaðarins að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Þeir gátu reynt að fara úr landi og þannig orðið hluti af stærra kerfi. Bankakerfið í heild hefði getað orðið hluti af stærra myntsvæði. En það hafi ekki allir verið hrifnir af því á Íslandi. Þriðji möguleikinn hefði verið mjög stór gjaldeyrisvarasjóður Seðlabanka Íslands.
Sigurjón sagði fyrir Landsdómi í dag aðspurður að mjög fátt hefði verið hægt að gera á árinu 2008 til þess að þrýsta á bankana en það hefði heldur ekki þurft. Ekki hefði vantað viljann hjá bönkunum til að taka á vandanum. Fullyrðingar um annað væru einfaldlega rangar. Hann sagði að stóra langtímavandamálið hefði verið hlutfallsvandinn, það er smæð íslenska kerfisins.
Fram kom hjá Sigurjóni að lausafjárskortur hefði ekki hrjáð Landsbanka Íslands, það er ekki í íslenskum krónum, heldur skortur á erlendum gjaldeyri. Ekki hefði verið hægt að breyta krónum í erlenda mynt.
Hann sagði að ekki hefði verið einfalt að minnka bankann 2008. Hægt hefði verið að selja ákveðnar eignir en það gáfulegasta hefði verið að taka eignir og breyta þeim í fjármagn.
Spurður um hugmyndir um sameiningu Landsbanka Íslands við Glitni sagði hann það hefði ekki verið raunhæft án lausafjárstuðnings við Glitni utan frá. Ekkert hefði hins vegar orðið af því.