Aðdragandinn að stofnun Icesave-innlánsreikninga í erlendum útibúum var í góðu samstarfi við þarlend fjármálaeftirlit. Þegar umræða hófst um flutning Icesave yfir í dótturfélag í Bretlandi ríkti bjartsýni um að það myndi takast. Þetta kom fram í máli Björgólfs Guðmundssonar, fyrrv. formann bankaráðs Landsbankans, við skýrslugjöf fyrir Landsdómi í dag.
Að sögn Björgólfs var litið svo á að eignir væru á móti innlánunum. Það hafi hins vegar gerst um sumarið 2008 að Icesave-deilan hafi orðið að pólitísktu bitbeini í Bretlandi.
Með því tók hann undir samskonar málflutning Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrv. bankastjóra Landsbankans, sem einnig báru vitni fyrir Landsdómi í dag, Halldór símleiðis.
Hollendingarnir voru ekki óttaslegnir
„Málið lá vel fyrir og var mjög vel kynnt ... Þetta var viðbótarstarfsemi... Við vorum í góðum samskiptum við [fjármála]eftirlitið. Ég minnist þess ekki að þeir hafi verið með ótta... Við samþykktum að fara eftir þeirra lausafjárreglum... Þannig að við vorum bara í góðum samskiptum við Hollendingana,“ sagði Björgólfur.
„Við komum alltaf til móts við þeirra beiðnir.“
Björgólfur ítrekaði þá skoðun sína að innan Landsbankans hefði aldrei verið litið svo á að ríkisábyrgð væri á Icesave-innistæðunum. Sigurjón Þ. tók í svipaðan streng er hann sagði að hvergi í heiminum væri litið svo á að tryggingasjóðir myndu bæta fyrir tap af innlánum stórra banka.