„Þetta er ótrúlegt!“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á facebooksíðu sinni um þau ummæli Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra fyrir Landsdómi síðastliðinn föstudag að hann hefði ekki heyrt um hugtakið krosseignatengsl fyrr en sumarið 2008. Það er í þessu tilfelli náin eignatengsl á milli íslensku bankanna sem skapaði hættu á að ef einn þeirra félli færi eins fyrir hinum.
„Ég hafði margrætt hugtakið krosseignarhald í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem Össur sat sem fulltrúi Samfylkingar og hafði nefnt það líka í ræðu á Alþingi,“ segir Pétur. Þannig hafi hann meðal annars haldið fund í nefndinni 1. mars 2005 sem formaður hennar „um gagnkvæm eignatengsl í fyrirtækjum og félögum, með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Samtökum fjárfesta, Kauphöll Íslands og Indriða H. Þorlákssyni ríkisskattstjóra“.
Pétur segir að á fundinum hafi hann farið í gegnum þá hættu sem skapaðist af gagnkvæmu eignarhaldi og krosseignarhaldi. „Þá hélt ég fund 20. september 2007 þar sem efnahags- og skattanefnd, undir forustu minni, heimsótti Seðlabanka Íslands og fór í gegnum jöklabréfin sem ég sá sem mikla hættu í þjóðfélaginu. Þetta var löngu fyrir hrun.“
Facebook-síða Péturs H. Blöndal