Stoppa útgáfu skuldabréfa

Helgi Hjörvar alþingismaður.
Helgi Hjörvar alþingismaður.

Ýmsir aðilar hafa í hyggju að gefa út skuldabréf með hliðstæðum greiðslum og stutt íbúðabréf. Verði það raunin gæti útstreymi gjaldeyris aukist til muna eða jafnvel margfaldast. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi um gjaldeyrishöft sem lagt var fram síðdegis.

Þetta frumvarp var kynnt á þingflokksfundum í dag og síðan lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Gert er ráð fyrir að það verði að lögum í kvöld.

Í framsögu Helga Hjörvar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að eðli gjaldeyrishafta væri þannig að menn leituðu leiða til að komast undan þeim. Þeir sem ættu eignir hér á landi væru að flytja vaxtatekjur af þessum eignum úr landi. Það væri eðlilegt að þeir mættu gera það, en með lögunum væri verið að koma í veg fyrir að þeir gætu flutt afborganir og verðbætur líka úr landi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fjármagnshöftin banni að uppgreiðslu höfuðstóls skuldabréfs sé skipt yfir í erlendan gjaldeyri og flutt úr landi. Frá því að fjármagnshöft voru lögð á hefur erlendum aðilum hins vegar verið heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur sem til falla vegna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana og flytja hann úr landi á þeim forsendum að tekjur af fjármagni eru þáttur viðskiptajafnaðar en ekki fjármagnsjafnaðar. Sama hefur gilt um jafnar greiðslur og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa.

Í upphafi voru jafngreiðslubréf ekki talin valda umtalsverðum vanda. Jafngreiðslubréf eru hins vegar þess eðlis að afborgun af höfuðstól sem hlutfall af heildargreiðslu vaxta og höfuðstóls vex þegar nær dregur lokagjalddaga bréfsins. Í kjölfar birtingar áætlunar um afléttingu gjaldeyrishafta hafa aðilar nýtt sér þessa leið til að eiga möguleika á að koma höfuðstólsgreiðslum úr landi. Hafa þeir ýmist verið smám saman að flytja sig úr öðrum eignum yfir í jafngreiðslubréf þar sem hægt er að skipta vöxtum, verðbótum og höfuðstólsgreiðslum í erlendan gjaldeyri, eða jafnvel nýtt sér þann möguleika að kaupa krónur á aflandsmarkaði til að kaupa slík bréf, þannig að töluverður ávinningur hefur skapast af fjárfestingunni sem leiðir af mismun á gengi krónunnar á aflands- og álandsmarkaði. Þessi viðskipti grafa undan tilgangi gjaldeyrishaftanna og undan áætlun um afnám þeirra. Sem dæmi um skuldabréf með jöfnum afborgunum má nefna útgáfur Íbúðalánasjóðs, svokallaða HFF-flokka, sem eru jafngreiðslubréf, með gjalddaga tvisvar á ári, þar sem greidd er afborgun og verðbætur af höfuðstól ásamt vöxtum. Upplýsingar um eignarhald í flokkum Íbúðalánasjóðs sýna að erlendir aðilar hafa aukið verulega stöðu sína í þeim á undanförnum misserum. Aðeins eru tvö og hálft ár til gjalddaga stysta flokks Íbúðalánasjóðs. Greiðslur af höfuðstól og verðbætur á höfuðstól vegna HFF14 munu að meðaltali nema um 7 milljörðum tvisvar á ári (í mars og september), fram til lokagjaldaga í september 2014, alls um 42 milljarða. Til samanburðar var heildarveltan á innlendum gjaldeyrismarkaði á árinu 2011 um 77 milljarðar (án þátttöku Seðlabankans).

Pétur H. Blöndal alþingismaður benti á í umræðunni að áhrif af þessari lagasetningu yrðu þau að gengi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs myndu falla á morgun. Hann spurði hvort nefndin hefði hugað að eignarréttarsjónarmiðum þeirra sem hefðu nýlega keypt þessi bréf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka