Stoppa útgáfu skuldabréfa

Helgi Hjörvar alþingismaður.
Helgi Hjörvar alþingismaður.

Ýmsir aðilar hafa í hyggju að gefa út skulda­bréf með hliðstæðum greiðslum og stutt íbúðabréf. Verði það raun­in gæti út­streymi gjald­eyr­is auk­ist til muna eða jafn­vel marg­fald­ast. Þetta kem­ur fram í grein­ar­gerð með frum­varpi um gjald­eyr­is­höft sem lagt var fram síðdeg­is.

Þetta frum­varp var kynnt á þing­flokks­fund­um í dag og síðan lagt fyr­ir efna­hags- og viðskipta­nefnd. Gert er ráð fyr­ir að það verði að lög­um í kvöld.

Í fram­sögu Helga Hjörv­ar, for­manns efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar, sagði að eðli gjald­eyr­is­hafta væri þannig að menn leituðu leiða til að kom­ast und­an þeim. Þeir sem ættu eign­ir hér á landi væru að flytja vaxta­tekj­ur af þess­um eign­um úr landi. Það væri eðli­legt að þeir mættu gera það, en með lög­un­um væri verið að koma í veg fyr­ir að þeir gætu flutt af­borg­an­ir og verðbæt­ur líka úr landi.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir að fjár­magns­höft­in banni að upp­greiðslu höfuðstóls skulda­bréfs sé skipt yfir í er­lend­an gjald­eyri og flutt úr landi. Frá því að fjár­magns­höft voru lögð á hef­ur er­lend­um aðilum hins veg­ar verið heim­ilt að kaupa er­lend­an gjald­eyri fyr­ir krón­ur sem til falla vegna vaxta, verðbóta, arðs og samn­ings­bund­inna af­borg­ana og flytja hann úr landi á þeim for­send­um að tekj­ur af fjár­magni eru þátt­ur viðskipta­jafnaðar en ekki fjár­magn­s­jafnaðar. Sama hef­ur gilt um jafn­ar greiðslur og verðbæt­ur af höfuðstól skulda­bréfa.

Í upp­hafi voru jafn­greiðslu­bréf ekki tal­in valda um­tals­verðum vanda. Jafn­greiðslu­bréf eru hins veg­ar þess eðlis að af­borg­un af höfuðstól sem hlut­fall af heild­ar­greiðslu vaxta og höfuðstóls vex þegar nær dreg­ur loka­gjald­daga bréfs­ins. Í kjöl­far birt­ing­ar áætl­un­ar um aflétt­ingu gjald­eyr­is­hafta hafa aðilar nýtt sér þessa leið til að eiga mögu­leika á að koma höfuðstóls­greiðslum úr landi. Hafa þeir ým­ist verið smám sam­an að flytja sig úr öðrum eign­um yfir í jafn­greiðslu­bréf þar sem hægt er að skipta vöxt­um, verðbót­um og höfuðstóls­greiðslum í er­lend­an gjald­eyri, eða jafn­vel nýtt sér þann mögu­leika að kaupa krón­ur á af­l­ands­markaði til að kaupa slík bréf, þannig að tölu­verður ávinn­ing­ur hef­ur skap­ast af fjár­fest­ing­unni sem leiðir af mis­mun á gengi krón­unn­ar á af­l­ands- og álands­markaði. Þessi viðskipti grafa und­an til­gangi gjald­eyr­is­haft­anna og und­an áætl­un um af­nám þeirra. Sem dæmi um skulda­bréf með jöfn­um af­borg­un­um má nefna út­gáf­ur Íbúðalána­sjóðs, svo­kallaða HFF-flokka, sem eru jafn­greiðslu­bréf, með gjald­daga tvisvar á ári, þar sem greidd er af­borg­un og verðbæt­ur af höfuðstól ásamt vöxt­um. Upp­lýs­ing­ar um eign­ar­hald í flokk­um Íbúðalána­sjóðs sýna að er­lend­ir aðilar hafa aukið veru­lega stöðu sína í þeim á und­an­förn­um miss­er­um. Aðeins eru tvö og hálft ár til gjald­daga stysta flokks Íbúðalána­sjóðs. Greiðslur af höfuðstól og verðbæt­ur á höfuðstól vegna HFF14 munu að meðaltali nema um 7 millj­örðum tvisvar á ári (í mars og sept­em­ber), fram til loka­gjaldaga í sept­em­ber 2014, alls um 42 millj­arða. Til sam­an­b­urðar var heild­ar­velt­an á inn­lend­um gjald­eyr­is­markaði á ár­inu 2011 um 77 millj­arðar (án þátt­töku Seðlabank­ans).

Pét­ur H. Blön­dal alþing­ismaður benti á í umræðunni að áhrif af þess­ari laga­setn­ingu yrðu þau að gengi skulda­bréfa Íbúðalána­sjóðs myndu falla á morg­un. Hann spurði hvort nefnd­in hefði hugað að eign­ar­rétt­ar­sjón­ar­miðum þeirra sem hefðu ný­lega keypt þessi bréf.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert