Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir fyrrverandi seðlabankastjóra hafa „tekið hamskiptum“ á fundi í ráðherrabústaðnum, þar sem til umræðu voru fundir seðlabankastjóra með bankamönnum í London.
Fundurinn var haldinn 7. febrúar 2008.
„Þar voru Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason. Tryggvi Pálsson var þar líka og forsætis- og fjármálaráðherra. Seðlabankastjóri hafði farið til London og fengið áhyggjur af málefnum bankanna eftir þann fund,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagði að þar hefði seðlabankastjóranum verið tjáð af stjórnendum stórra banka að forsvarsmenn íslensku bankanna hefðu verið að leita að lánsfé hjá þeim og þeir hefðu komið afar illa fyrir. „Kaupþing hefði ekki verið trúverðugt og Glitnir verið desperat,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
„Um miðbik fundarins - þetta er mikilvægt að menn hafi með andrúmsloftið í huga - var eins og seðlabankastjóri tæki hamskiptum. Hann fór mikinn, úthúðaði bankamönnum og útrásinni með miklum stóryrðum og slætti,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún segir að hann hafi verið einn til frásagnar um það sem fram fór á fundunum í London. „Ég hef séð hann áður í þessum ham og veit að það á að taka því sem hann þá segir með fyrirvara. Ég horfði á forsætis- og fjármálaráðherra og sá að þeir þekktu þessar uppákomur. Við sögðum svosem ekki mikið og ákváðum að láta þetta yfir okkur ganga. En við áttuðum okkur á því að það hafði eitthvað komið upp á í London sem ástæða væri til að skoða nánar.“
Hún sagðist ekki hafa beðið Seðlabankann um nánari skýringar á málinu eftir fundinn, hún hefði talið það skyldu Seðlabankans að koma upplýsingum til fundarmanna ef á því væri þörf vegna svokallaðrar „frumkvæðisskyldu“ bankans.