Vill fá rammaáætlun inn í þingið

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því á Alþingi í dag að þingsályktunartillaga um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma yrði lögð strax fram á þingi. Hann sagði að pólitísk stefnumörkun VG væri að rata inn í tillöguna.

Bjarni sagði að grunnhugsun um vinnu við gerð rammaáætlunar hefði verið að setja málið í faglegan búning og vinna málið með langtímahugsun að leiðarljósi. Sú vinna sem nú væri í gangi milli iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra bæri hins vegar vott um að málið væri enn á ný orðið pólitískt bitbein. Þar með væri verið að grafa undan þeirri langtímahugsun sem hefði verið lagt af stað með þegar þessi vinna hófst.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði að verið væri að vinna þetta mál í samræmi við það sem lög kveða á um. Eftir að drög að þingsályktun hefði verið skilað inn hefði málið verið sent til umsagnar. Það hefðu 225 umsagnir borist og ráðherrarnir væru að fara yfir þær efnislega. Það væri skylda stjórnvalda að fara yfir þessar umsagnir og bregðast við þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert