Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafði aldrei neina beina vitneskju um störf starfshóps um fjármálastöðugleika. Ákveðin gögn hefðu verið lögð fram í hópnum sem eftir á að hyggja hefði verið sérkennilegt að ráðherrar skyldu ekki fá í hendurnar. Þetta sagði hún við vitnaleiðslur í Landsdómi nú í morgun.
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, spurði Ingibjörgu Sólrúnu út í störf samráðshópsins sem stofnaður var árið 2006 og hvaða vitneskju hún hefði haft um störf hópsins fyrir hrunið. Svaraði hún því að hún hefði lítið vitið um störf hópsins fyrir utan einn fund með Bolla Þór Bollasyni, formanni nefndarinnar, sem líklega hefði verið í apríl 2008.
Ingbjörg Sólrún sagði að gögn frá hópnum hefðu aldrei verið kynnt á ríkisstjórnarfundum að því er hún best vissi. Eftir á að hyggja hefðu verið lögð fram í hópnum gögn sem sérkennilegt væri að hefðu ekki verið kynnt ríkisstjórninni.
„Það var ekki gert því að þessar upplýsingar voru taldar svo viðkvæmar,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Engu að síður hefði enginn séð fyrir sér á þessum tímapunkti að bankakerfið væri komið að falli. Þá spurði saksóknari hvort önnur og dekkri mynd hefði verið dregin upp á fundum með stjórn seðlabankans.
„Nei, það var ekki dregin upp dekkri mynd af bönkunum sem slíkum. Hins vegar var dregin upp sú mynd að það væru ýmsir úti í heimi sem vildu ekkert hafa saman við íslensku bankana að sælda. Þetta kom ekki síst frá Davíð Oddssyni, sem talaði um þá sem skúrka og og hina verstu menn,“ svaraði fyrrverandi utanríkisráðherrann.
Þrátt fyrir þetta hefði verið talið að bankarnir stæðu styrkum fótum. Þeir hefðu til að mynda ekki tekið þátt í undirmálslánum eins og fjármálastofnanir ytra höfðu gert og ollu efnahagskreppunni í heiminum.