Aðeins aðlögun að ESB framundan

Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Ljósmynd/JPlogan

Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu ræddu sín á milli um ferlið og framhaldið á Alþingi síðdegis í dag og fram á kvöld. Þar kom meðal annars fram hörð gagnrýni á utanríkisráðherra og fyrrverandi ráðherra upplýsti um að aðeins sé framundan aðlögun að ESB. Því þurfi að taka málið upp.

Umræðan var um þingsályktunartillögu Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, en í henni felst að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram „aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins“. Samkvæmt tillögunni fari atkvæðagreiðslan fram samhliða forsetakosningum síðar á þessu ári.

Í ræðu Vigdísar kom fram, að vel væri við hæfi að kjósa samhliða forsetakosningum  „því við höfum fengið algjörlega upp í kok af þeim vinnubrögðum sem þessi ríkisstjórn, sérstaklega ráðherrar Samfylkingarinnar, hafa sýnt okkur.“ Hún sagði spunann og blekkingarnar slíkar að það sé þyngra en tárum taki að horfa upp á.

Vigdís vitnaði til fundar með þingmönnum Möltu sem voru hér á landi fyrir skemmstu. Sagði hún þingmennina hafa reynt að heilaþvo sig með ESB áróðri, en einn þeirra hafi meðal annars sagt að Íslendingar þyrftu ekki að óttast neitt. Lausn myndi finnast á sjávarútvegsmálum. Hún sagðist hafa bent þingmanninum á, að það væri ekki nema 10-15% falin í þeirri auðlind. ESB ásældist mun meira en það. Nefndi Vigdís legu landsins, kalda vatnið og heita vatnið. Af öllu nefndu sagði hún legu landsins skipta ESB mestu máli.

Erfitt að halda áfram

Að ræðu Vigdísar lokinni tók við keflinu Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann sagði ljóst að umsóknarferlið sé komið á krossgötur. „Ég held að það sé komið á það stig, að erfitt er að halda áfram því aðlögunarferli sem nú er að fara ganga í garð án þess að Alþingi taki málið aftur til endurskoðunar.“

Jón að staðan væri sú, að rýnivinnu væri lokið, þ.e. að bera saman lög og reglur Íslands og Evrópusambandsins. „Fyrir liggur hvar munurinn er og að Evrópusambandið hefur greint frá því hvar Ísland þurfi að breyta sínum lögum og reglum.“ Hann sagði það ekki samræmast þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma um að senda inn umsókn. Í henni hafi verið mjög afmörkuð og skýr skilyrði um hversu langt ganga mætti í ferlinu. Því þurfi að endurnýja umboðið.

Meðal þeirra sem veittu andsvör við ræðu Jóns var áðurnefnd Vigdís Hauksdóttir. Hún spurði hvort það væri embættismannakerfi ESB eða utanríkisráðherra Íslands sem ráði för í aðildarferlinu. Jón svaraði því til, að fullkomlega ljóst sé að gengið sé inn í verklag sem Evrópusambandið ákveður þegar sótt er um aðild að því. ESB stýri því för eftir að umsóknin er komin inn, rétt eins og hjá öðrum löndum sem sótt hafa um aðild.

Vigdís sagði að með svari Jóns væri upplýst um það, að ESB ráði för í öllu ferlinu. Það sýni aftur fram á það, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segi þjóðinni ósatt þegar hann greini frá því, að hann hafi eitthvað með það að gera hvað sé rætt, eða hvað lagt sé upp með í ferlinu. „Ég held að það sé tímabært að utanríkisráðherra farið að segja þjóðinni satt og rétt frá,“ sagði Vigdís og bætti við: „Halda mætti því fram að hann hefði gert sig sekan um afglöp í starfi.“

Undir þetta gat Jón ekki tekið. Hann sagðist koma utanríkisráðherra til varnar enda vinni hann að þessu felri af einlægni, og reyni að leysa úr kröfum ESB eins hratt og vel hann geti.

Hóf ekki undirbúning að lagabreytingum

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, spurði ráðherrann fyrrverandi í kjölfarið út í vinnu hans í ráðuneytinu, varðandi fyrirvara og skilyrði sem hann setti sem ráðherra.

Jón sagði, að þegar rýnivinnu um landbúnað og byggðarþróun lauk spurðist Evrópusambandið um það hvenær og hvernig Ísland ætlaði að laga sig að sambandinu. Þá hafi hann svarað því til að hann ætlaði ekki að hefja breytingar á lagarammanum eða gera skipulagsbreytingar fyrr en búið væri að semja við Evrópusambandið og þjóðin hefði greitt atkvæði um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann ætlaði sér ekki að stuðla að aðlögun að sambandinu áður.

Hann segir að þá hafi verið spurt á móti hvernig Ísland ætlaði þá að vera tilbúið til að taka upp lagaramma Evrópusambandsins á fyrsta degi aðildar. „Þessi skilyrði voru mjög skýr,“ sagði Jón sem óskaði eftir fundi í Brussel um skilyrðin. „En þeir rétt sluppu fyrir horn.“

Ásmundur sagði þá ljóst að um kröfu Evrópusambandsins hafi verið að ræða þegar Jóni var „kastað“ úr ríkisstjórn. Hann spurði Jón því næst hvort hann vissi hvað hvernig málin hefðu þróast eftir að Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, tók við af honum, en Steingrímur fór í umrædda ferð til Brussel.

Jón sagði það liggja fyrir hverjar kröfur Evrópusambandsins eru í þessum efnum, og ekki þurfi að velkjast í vafa um það. „En ég vona svo innilega að fögnuður þeirra í Brussel [um brotthvarf Jóns úr ríkisstjórn] reynist þeim vonbrigði. Og að það sá sem tók við af mér bregðist þeim í Brussel hvað þetta varðar.“

Þá sagði hann, að vegna þess hversu skýrar kröfur Evrópusbambandsins eru þurfi Alþingi að taka málið til sín og fara yfir það, hvort heimilt sé að vinna áfram að aðild og í aðlögunarferlinu sem stendur fyrir dyrum, eða hvort ekki eigi að stoppa við.

Evrópusambandið
Evrópusambandið AP
Jón Bjarnason afhenti Steingrími J. lyklavöldin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
Jón Bjarnason afhenti Steingrími J. lyklavöldin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka