„Alltaf hættumerki þegar það gerist“

Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag
Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bankarnir höfðu breyst í fjárfestingarbanka sem tóku meiri áhættu og beinlínis stærðu sig af örum vexti sínum. Það er alltaf hættumerki þegar slíkt gerist. Þetta kom fram í vitnisburði Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans fyrir Landsdómi í morgun. Hins vegar hafi alltaf verið litið svo á að vandinn sem steðjaði að bönkunum hafi fyrst og fremst verið vandi þeirra sjálfra en ekki ríkissjóðs.

Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari, spurði Tryggva hvort að seinni part árs 2008 hafi verið raunhæfur möguleiki á vandræðum sem stjórnvöld þyrftu að bregðast við. Játaði Tryggvi því og sagði að í nóvember árið 2007 hafi honum verið ljóst að vandi bankanna væri erfiðari en sá sem þeir höfðu átt í hinni svokölluðu míníkrísu frá hausti 2005 til haustsins 2006.

Spurði varasaksóknari þá hvort að eitthvað í uppbyggingu eða starfsemi bankanna hafi kallað á varúð hjá stjórnvöldum.

„Vissulega. Bankarnir voru á starfssvæði þar sem þeir höfðu aðgang að evrópska markaðinum en við vorum ekki hluti af viðbúnaðaráætlun innan Evrópusambandsins. Þeir voru byggðir upp með erlendri fjármögnun bæði til lána hér og erlendis. Þeir höfðu í eðli sínu breyst í fjárfestingarbanka sem taka meiri áhættu og svo höfðu þeir beinlínis stært sig af því að þeir væru fljótari til ákvarðana en aðrir og væru að stækka mjög ört. Það er alltaf hættumerki þegar það gerist,“ sagði Tryggvi.

Miðað sé við að það sé hættumerki þegar innlánavöxtur banka sé meiri en 15%. Vöxtur íslensku bankanna hafi verið mun meiri en það.

„En það var alltaf línan að þetta væri fyrst og fremst vandamál bankanna sjálfra,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert