„Hvað þarf marga ráðuneytisstjóra til?“

Þjóðmenningarhús Þjóðmenningarhúsið Landsdómur
Þjóðmenningarhús Þjóðmenningarhúsið Landsdómur mbl.is/Hjörtur

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, segir að hann hafi talað ítrekað um það sumarið 2008 að aðgerðarhópur undir forystu reynds stjórnanda þyrfti að leysa samráðshóp um fjármálastöðugleika af hólmi. Þetta virðist hins vegar ekki hafa komist til skila til ráðherra.

Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari, spurði Tryggva út í við hvað hann hafi átt í fundargerð samráðshópsins frá 7. júlí þar sem haft er eftir honum að stjórnvöld hafi ekki gert upp við sig hversu langt þau vilji ganga í hugsanlegri björgun bankakerfisins.

Svaraði Tryggvi að Seðlabankinn hafi verið að ítreka sína afstöðu til þess hvernig ætti að vinna málin innan hópsins til undirbúnings fjármálaáfalls. Áður hafði komið fram að ágreiningur var á milli Seðlabankans og Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, og Bolla Bollasonar, formanns hópsins, um hversu langt ætti að ganga.

„Á þessum tíma taldi ég að það þyrfti í raun öðruvísi hóp til að taka næsta skrefið. Þessi hópur var myndaður af embættismönnum og var upplýsinga- og skoðanaskiptahópur. Ég taldi að það þyrfti að setja upp aðgerðarhóp og orðaði það oftar en einu sinni að það þyrfti herforingja til þess að stjórna honum. Þessi hópur væri góður sem ráðgefandi hópur en hann væri ekki byggður af þeim persónum sem hefði þurfti í svona aðgerðarhóp,“ sagði Tryggvi.

Talið hefði verið að þessar umræður í hópnum færu til viðkomandi ráðherra en það virðist ekki hafa gerst þrátt fyrir að þrír ráðuneytisstjórar hafi átt sæti í honum.

„Maður spyr sig, hversu marga ráðuneytisstjóra þarf til þess að koma þessum gögnum áleiðis,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert