Íhuguðu að hóta bönkunum

Þjóðmenningarhúsið, en þar er landsdómur.
Þjóðmenningarhúsið, en þar er landsdómur. mbl.is/Hjörtur

Hart var lagt að bönkunum að selja eignir sínar og rætt var um það innan Seðlabanka Íslands að hóta þeim því að komið yrði upp um raunverulega stöðu þeirra við matsfyrirtæki. Innan Seðlabankans voru efasemdir um að það fé sem bönkunum tækist hugsanlega að losa um, myndi renna til rekstrarins en ekki beint til eigenda bankanna.

Þetta sagði Tryggvi Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands við vitnaleiðslur við Landsdóm í morgun.

„Við vorum í sambandi við matsfyrirtæki; ef þið gerið ekki það sem við viljum þá upplýsum við þau um hvað staða ykkar er veik. Þetta var náttúrulega sem hótun til í dæminu; að við myndum koma inn í umræðuna með neikvæðum meldingum,“ sagði Tryggvi þegar Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari bað hann um að gera grein fyrir því hvort og hvernig Seðlabankinn hefði reynt að fá stjórnendur bankanna til að draga úr umsvifum þeirra.  

Tryggvi sagði að bankarnir hefðu verið mjög háðir matsfyrirtækjunum og að hefði Seðlabankinn látið verða af þessari hótun, þá hefðu stjórnvöld þar með orðið völd að falli bankanna.

Hann gerði grein fyrir vinnu breska fjármálasérfræðingsins Andrew Gracie, áður starfsmanns Englandsbanka og stofnanda Crisis Management Analytics fyrir Seðlabanka Íslands, en hann vann áætlun um hvernig viðlagaundirbúningur í fjármálakrísu gæti verið háttað. Í máli Tryggva kom fram að Gracie hefði reiknað út hver gæti verið skaðinn af fjármálaáfalli. „Ráðlegging hans var að ef menn þurfa að taka yfir, þá þarf að finna út hverjir hluthafar eru. Hluthafar eru þeir fyrstu sem eiga að bera skaðann, síðan skuldabréfaeigendur, en það verður að vernda innistæðueigendur.“

„Er þetta einhverskonar skapalón fyrir viðbrögðin eftir þetta“? spurði Helgi. „Já, það hjálpaði okkur að hafa utanaðkomandi álit manns sem hafði miklu meiri reynslu en við.“

Tryggvi sagði að lagt hefði verið að bönkunum að selja eignir, skipta sér upp í fjárfestinga- og viðskiptabanka og fjármagna sig með ýmsu móti. „Ég held að þarna hafi staðan verið orðin býsna þröng til að gera þetta á mörkuðunum. Segjum að ef bankarnir hefðu losað um fé, þá er samt spurning um hvort það hefði verið alveg tryggt að þeir peningar sem þannig hefðu sparast hefðu ekki farið til stærstu hluthafa og aðila tengdum þeim,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka