„Ísland var best í heimi"

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og ráðherra, í Landsdómi …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og ráðherra, í Landsdómi í dag. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, bar vitni fyrir Landsdómi í dag og sagði fjölmiðla, stjórnmálamenn og stofnanir ekki hafa hlustað á aðvörunarorð þeirra sem töldu sig sjá hættumerki í fjármálakerfinu. Sú stemning hafi verið uppi í þjóðfélaginu að „Ísland væri best í heimi" og áhyggjurnar því óþarfar.

Steingrímur tók það sem dæmi um aðvaranir sínar að hann hafi ásamt nokkrum þingmönnum VG lagt fram tillögur á árinu 2005 um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika í frumvarpi sem er aðgengilegt hér. Sagði þar m.a.: „Beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi.“

Fall bankanna þriggja kom á óvart

Fram kom í máli Steingríms að það hefði komið honum á óvart að allir þrír bankarnir skyldu hrynja. Hann hefði átt von á að einn eða tveir bankanna ættu í erfiðleikum en ekki að þrír myndu falla. 

Steingrímur lýsti við vitnaleiðslurnar samtölum sínum við fulltrúa norrænu seðlabankanna eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og VG tók við völdum með stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009 og svo eftir að Samfylkingin og VG komust til valda eftir að hafa náð hreinum meirihluta í kosningunum vorið. Hann hafi þá orðið þess áskynja að traust til Íslendinga hefði beðið hnekki.

Það hafi komið „oft upp í þessum samskiptum að það væri ekki mikið traust borið til íslenskra stjórnvalda og að það væri verk að vinna að endurheimta það". „Þeir litu svo á að þeir væru að gera okkur greiða,“ sagði Steingrímur um samstarf norrænu ríkjanna í gjaldeyrismálum við íslensk stjórnvöld. Hann hefði síðan sjálfur farið í utanferðir til að tryggja sem best kjör á þessum lánasamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert