Leggja til almenna niðurfærslu lána

mbl.is/Heiðar

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar. Sú leið sem tillagan felur í sér felur í sér leiðréttingu á þeim skuldum sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og verða þær fluttar frá heimilunum í sérstakan afskriftasjóð fasteignaveðlána. Þá er einnig lögð til breyting á verðtryggingarákvæðum slíkra lána. Málið er á dagskrá Alþingis í dag.

Í tilkynningu frá Hreyfingunni segir að orðið hafi alger forsendubrestur fyrir öllum greiðslumöguleikum á fasteignaveðlánum heimila landsins, forsendubrestur sem ekki er ásættanlegt að heimilin beri ein og sér. Tillagan gangi út á að leiðrétta þennan forsendubrest án þess að það leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð og Íbúðalánasjóð og hlífi einnig eignahlið efnahagsreikninga lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja við skelli.

Leiðréttingin sem Hreyfingin boðar í tillögu sinni gengur út á að sú hækkun á fasteignaveðlánum heimilanna sem varð vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (2,5%) verði færð af heimilunum og yfir í sérstakan sjóð, afskriftasjóð fasteignaveðlána, sem verður eign í efnahagsreikningum skuldaeigendanna. Þar myndar þessi hluti lánanna nýtt óverðtryggt lán sem ber árlega 3,5% vexti. Sjóður þessi verður greiddur niður með 25 jöfnum árlegum greiðslum, í fyrsta sinn einu ári eftir stofnun sjóðsins. Sjóðnum verði skapaðar tekjur eins og greint er frá hér fyrir aftan.

Lagt er til að í afskriftasjóð fasteignaveðlána færist allar áfallnar verðbætur á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimilanna umfram 2,5% þak, að frádregnum þeim leiðréttingum sem þegar hafa farið fram. Eigendur afskriftasjóðsins (kröfuhafar) verða því innlánsstofnanir, aðrir eigendur HFF-bréfa (og annarra bréfa Íbúðalánasjóðs) sem ekki eru í eigu lífeyrissjóða sem og lífeyrissjóðirnir. Eign þeirra er í sömu hlutföllum og kröfur þeirra hljóða upp á og fá þeir kröfur sínar greiddar á 25 árum með jöfnum árlegum greiðslum (jafngreiðslulán). Miðað er við að höfuðstóll kröfunnar beri 3,5% vexti. Það þýðir að sjóðurinn þarf að standa undir 15,168 ma.kr. inngreiðslu árlega.

Tillagan gerir ráð fyrir að sjóðnum verði skapaðar tekjur til 25 ára til að standa undir útgjöldum sínum. Þessar tekjur eru fjórþættar:

  1. Sérstakt vaxtaálag verði lagt á öll fasteignaveðlán. Nemur það í upphafi 0,25%, en lækkar árlega um 0,01% uns það verður 0,10% þegar tíu ár eru eftir af endurgreiðslutímabilinu og helst óbreytt eftir það.
  2. Lagður verði árlegur tímabundinn eignarskattur á eignir innlánsstofnana og HFF-bréfaeign annarra en lífeyrissjóða.
  3. Vaxtabætur (eltandi vaxtabætur) sem annars hefði verið ráðastafað í vaxtabætur til heimilanna ef ekki hefði komið til niðurfærsla á skuldunum verða notaðar í staðinn til niðurgreiðslu sjóðsins.
  4. Afgangurinn af fjármögnun sjóðsins verður fenginn með sérstökum tímabundnum eignarskatti á eignir lífeyrissjóða.

„Með þessu er lagt til að byrðarnar af leiðréttingunni dreifist á marga aðila,“ segir í fréttatilkynningu frá Hreyfingunni. „Samhliða þessu er lagt til að verðtrygging á nýjum fasteignaveðlánum verði afnumin með öllu og að verðtrygging eldri lána verði lögfest með hámarki í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem nú er 2,5%.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert