Ökumaður fólksbíls var hætt kominn þegar bíll hans valt ofan í Laxá á Ásum, sem er um 4 km sunnan við Blönduós. Vegfarandi kom að slysinu skömmu eftir að bíllinn fór út af og hélt hann höfði mannsins upp úr ánni þangað til sjúkrabíll og slökkvilið komu á staðinn.
Að sögn lögreglunnar á Blönduósi endaði bíllinn á hvolfi úti í ánni laust eftir kl. 19 í kvöld. Maðurinn gat ekki losaði sig af sjálfsdáðum, en vegfarandi kom strax á vettvang og náði að hjálpa manninum og láta lögreglu vita. Lögreglan segir að ef vegfarandinn hefði ekki komið að slysinu hefði getað farið illa og ökumaðurinn hreinlega drukknað.
Ökumaðurinn var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Blönduóss. Ekki er vitað um meiðsl hans.
Ekki er vitað hvers vegna bíllinn fór út af, en engin hálka var á veginum. Bíllinn, sem var á leiðinni til Blönduóss, virðist hafa farið yfir á rangan vegarhelming og yfir vegrið skömmu áður en hann kom að brúnni.