„Ósmekklegasta ræðan á Alþingi“

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

„Stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðisflokksins sýndu af sér fádæma andvaraleysi, ekki bara mánuðina fyrir hrun, heldur í mörg ár.“ Þetta sagði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna á Alþingi fyrir stundu, en þar er nú rætt um störf þingsins. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði ummælin hugsanlega þau ósmekklegustu sem komið hefðu fram á þingi.

„Enn sem komið er hefur enginn stjórnmálamaður boðist til að axla ábyrgð, það ætlar enginn sjálfviljugur að axla ábyrgð,“ sagði Björn Valur og sagði Landsdóm því vera einu vonina til þess að réttlæti gæti farið fram.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom í ræðustól beint á eftir Birni Vali og sagði ummæli hans ósmekkleg. Ég held að þetta hafi verið ein sú ósmekklegasta ræða sem hefur verið flutt á Alþingi, ef ekki sú ósmekklegasta,“ sagði Ragnheiður Elín. „Hér fór háttvirtur þingmaður algjörlega yfir strikið.“

Lúðvík Geirsson gerði fréttaflutning frá aðalmeðferð Landsdóms að umræðuefni og sagði að þrátt fyrir að góða viðleitni blaða- og fréttamanna, væri það með öllu óviðunandi að almenningi gæfist ekki kostur á að fylgjast með útsendingu frá réttarhöldunum. Hann mæltist til þess að Alþingi myndi beita sér fyrir því að upptökur frá réttarhöldunum yrðu gerðar aðgengilegar almenningi, fræðasamfélaginu og fjölmiðlum hið fyrsta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka