Verið er að herða á gjaldeyrishöftum til að setja undir leka sem nú er í kerfinu. Lekinn er ekki tilfinnanlegur eins og er en eykst og verður að bunu eða fossi ef ekkert verður að gert. Þetta er að minnsta kosti álit Seðlabankans og meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem undirbjuggu lagabreytinguna.
Frumvarp til breytinga á gjaldeyrislögum var lagt fram síðdegis í gær. Það kom þingmönnum á óvart enda var lögð áhersla á að ekkert myndi fréttast um innihald þess fyrr en eftir lokun fjármálamarkaðar og að það yrði afgreitt með hraði þannig að breytingin yrði klár áður en markaður verður opnaður í dag. Sýnir það að breytingin er talin geta raskað verðmæti skuldabréfa á markaði.
Tilefni breytinganna er tvíþætt, að því er fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu. Annars vegar er verið að takmarka undanþágur til að greiða erlendum kröfuhöfum þrotabúa út í erlendum gjaldeyri. Þetta á sérstaklega við þrotabú föllnu bankanna. Í staðinn mun Seðlabankinn veita slitastjórnunum heimild til útgreiðslu krafna á lengri tíma.
Hins vegar er verið að takmarka útflæði gjaldeyris vegna afborgana og vaxta af sérstökum skuldabréfum, svokölluðum jafngreiðslubréfum. Breytingin gerir ráð fyrir að sömu hömlur verði á að flytja þá peninga úr landi og aðra.
Frá því gjaldeyrishöft voru sett á hefur erlendum eigendum skuldabréfa verið heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur sem til falla vegna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana og flytja úr landi. Sama gildir um jafnar greiðslur og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa.
Jafngreiðslubréfin eru þannig að afborgun af höfuðstól vex þegar nær dregur lokagjalddaga. Eftir að áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta var birt hafa eigendur krónueigna nýtt sér þessa leið til að eiga möguleika á að koma eignum sínum fyrr úr landi. Þeir hafa verið að flytja sig í auknum mæli yfir í þessar eignir sem hingað til hafa aðallega verið útgáfur Íbúðalánasjóðs. Þeir sem standa að frumvarpinu telja að þetta útstreymi muni hafa umtalsverð áhrif á gjaldeyrismarkaðinn.
Alvarlegra er þó að til viðbótar hafa ýmsir aðilar gefið út eða hafa í hyggju að gefa út skuldabréf með hliðstæðum greiðslum og þessi stuttu íbúðabréf. Verði það raunin gæti útstreymi gjaldeyris aukist til muna eða jafnvel margfaldast. Seðlabankinn telur að ef ekki verður komið í veg fyrir þessa þróun gæti hún ógnað stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum hér með tilheyrandi afleiðingum fyrir gengisþróun og peningastefnu.
Höft á fjármagnsflutninga voru sett 2008. Tilgangurinn var að draga úr því að erlendir eigendur krafna flyttu þær úr landi. Það hefði leitt til enn meira gengisfalls krónunnar en þó varð, aukinnar verðbólgu og hærri vaxta. Unnið er að losun hafta skv. áætlun Seðlabankans. Opnist leiðir til að sniðganga höftin grefur það undan áætluninni og leiðir til óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði.