Samráðshópurinn virkaði allvel

Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag
Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Auðvitað má alltaf gera betur. Samráðshópurinn var settur upp sem skoðana- og upplýsingaskiptahópur. Hann virkaði allvel sem slíkur,“ sagði Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans þegar hann var spurður um störf samráðshóps um fjármálastöðugleika fyrir Landsdómi.

Tryggvi sagði að hópurinn hafi ekki unnið mikla frumvinnu sjálfur en að hann hafi lagt línurnar um hvað væri gert og tímasetningar. Hver aðili innan hópsins átti síðan að sinna sínum skyldum. Hann hafi verið mikilvægur vettvangur til skoðana- og upplýsingaskipta.

Kom fram í máli Tryggva að skoðanaágreiningur hafi verið á milli fulltrúa Seðlabankans og Seðlabankans annars vegar og formanns hópsins, Bolla Þórs Bollasonar, og Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins. FME og Seðlabankinn hafi viljað að tekin væri afstaða til fleiri kosta sem væru uppi. Baldur og Bolli hafi hins vegar ekki viljað ganga eins langt.

„Menn voru alltaf að horfa til þess að aðgerðir stjórnvalda yllu ekki þeim áföllum sem var verið að reyna að forða,“ sagði Tryggvi.

Hann er þó þeirrar skoðunar að þegar á hólminn var komið hafi starf hópsins verið gott.

„Ég var og er þeirrar skoðunar að þó að betra hefði verið að svara fleiri spurningum að þá hafi niðurstaðan verið farsæl. Þegar komið er að krísu þarf að taka snöggar ákvarðanir undir álagi og það bjargaðist,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert