Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál var samþykkt á Alþingi á fyrsta tímanum í nótt en það felur í sér að gjaldeyrishöftin eru hert, með afnámi undanþága. Gerð var breyting á frumvarpinu milli annarrar og þriðju umræðu. 25 þingmenn samþykktu frumvarpið en 12 þingmenn greiddu atkvæði gegn því. Þrír þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Breytingin felur í sér að innstæður í reiðufé í erlendum gjaldeyri í eigu lögaðila hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða hjá Seðlabanka Íslands eins og þær stóðu við lok dags 12. mars 2012 skulu undanþegnar bannákvæði.
Seðlabanki Íslands skal svo fljótt sem við verður komið setja reglur um hvernig undanþágur verða veittar vegna reiðufjár í erlendum gjaldeyri sem til fellur eftir 12. mars 2012 og er í eigu lögaðila hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða hjá Seðlabanka Íslands.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að breytingarnar væru til bóta en málið engu að síður svo vont að ekki væri hægt að styðja það. Málinu væri þá hvergi nærri lokið, og þyrfti að ræða áfram á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði umræðuna hljóta að kalla á, að rædd verði staða efnahagsmála á Alþingi og raunhæfa möguleika á því að afnema gjaldeyrishöft. „Við erum hér að horfast í augu við mörg hundruð milljarða íslenskra króna sem vilja leggja á flótta og við erum sífellt að herða reglur. Nú eru menn að koma í annað skiptið á einungis fimm mánuðum, og segja að þetta þurfum við að gera til að ná utan um vandann,“ sagði Bjarni og að þetta væri ekki trúverðugt.