„Mér finnst það ólíðandi að þegar gestir koma á fund og segja það sem er þeirra persónulega skoðun, þá sé því útvarpað á fésbókarsíðu fundarmanna,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.
Valgerður vitnaði þar til fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun og sagði að einn nefndarmanna, Vigdís Hauksdóttir, hefði tjáð sig um ummæli gesta nefndarinnar á Facebooksíðu sinni.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að ummæli Vigdísar hefði mátt skilja sem túlkun hennar á því sem gestirnir sögðu og að færsluna hefði hún skrifað áður en gestirnir höfðu yfirgefið fundarherbergið.
Álfheiður vitnaði í þingskaparlög í þessu samband og sagði að samkvæmt þeim væri óheimilt að vitna til orða gesta á fundum, nema til þess væri gefið leyfi.