Fram hefur komið að svissneskt álfyrirtæki, Klesch, vilji reisa álver á Bakka við Húsavík og gæti það hafið rekstur innan tveggja ára frá því að samningar tækjust. Verið myndi nota um 200 megavött. Ef notast yrði við umhverfismat sem gert var vegna áætlana Alcoa um stærra álver gæti það hraðað mjög framkvæmdunum.
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir að þessi mál séu í eðlilegum farvegi en vill að öðru leyti ekki tjá sig um þau á þessari stundu. Þetta sé bara eitt af mörgum fyrirtækjum sem hafi hug á að nýta orkuna á svæðinu.
„Við erum að vinna með PCC í Þýskalandi sem vill reisa kísilmálmverksmiðju og þær viðræður ganga ágætlega,“ segir Bergur í Morgunblaðinu í dag. „Frá okkar bæjardyrum séð er aðalatriðið að koma einhverju af stað, við viljum fara að búa til störf í Norðurþingi.“