Voru að gera Seðlabanka sjókláran

Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag
Tryggvi Pálsson fyrir landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þeir sem hafa haldið því fram að Kaupþing hefði getað lifað bankakrísuna af eru í „mjög djúpri afneitun“. Verið var að vinna að því að gera Seðlabankann „sjókláran“ til að bregðast við verstu hugsanlegu aðstæðum.

Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir Tryggva Pálssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands við Landsdóm í morgun.

„Við vorum að reyna að rýna í það hvernig þetta gæti smitast áfram. Eftir míníkrísuna 2006 reyndu bankarnir að aðgreina sig hvor frá öðrum. En þegar á reyndi og traustið brast á lánamarkaði almennt, þá litu erlendar fjármálastofnanir á íslensku bankana sem eina heild,“ svaraði Tryggvi þegar Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari spurði  hann hvort eitthvað hefði vantað upp á undirbúning Seðlabankans fyrir hugsanlega bankakrísu.

„Að sjálfsögðu reyndum við að lifa í voninni, að það tækist að bjarga einum, en menn eru ekki að vinna í fjármálastöðugleika til að bjarga einstökum banka,“ sagði Tryggvi.

Hann benti á að Kaupþing hefði fengið neyðarlán frá tveimur erlendum seðlabönkum. „Þetta gleymist og  þeir bankastjórar sem halda því fram að bankinn hefði getað lifað af, eru í mjög djúpri afneitun.“

Helgi spurði Tryggva því næst um fund samráðshóps um fjármálastöðugleika þann 15. janúar 2008 og spurði hvort þá hefði vinna verið hafin við viðbragðáætlun.

Tryggvi svaraði því til að hann teldi að  vinna samráðshópsins væri viðbragðsáætlun í sjálfu sér. „Við vorum búin að reikna út stærðina á mögulegu fjármálaáfalli. Viðbúnaðaráætlun þarf ekki að vera eitt einstakt plagg. Við vorum að vinna að því að gera Seðlabankann sjókláran til að bregðast við því sem mögulega gæti gerst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert