Bensínlítrinn var í gær kominn vel yfir 260 krónur hjá öllum eldsneytisfélögunum en hann hefur hækkað um fimm krónur síðustu daga.
Skýringar á þessum hækkunum er að finna á heimsmarkaði en hvaða afleiðingar hafa þær á neysluvísitöluna?
Meðalhækkunin á eldsneytinu er komin vel yfir 10% frá áramótum og fátt sem bendir til þess að lækkanir séu í spilunum. Guðrún Ragnheiður Jónsdóttir á Hagstofu Íslands segir að vægi bensíns í vísitölunni sé rúm sex prósent og því ljóst að áhrifin séu mikil á húsnæðislán og annað vísitölutengt.
„Hækkun um fimm prósent á bensíni og dísil merkir um 0,3% hækkun á vísitölunni og 10% bensínhækkun um 0,6% hækkun,“ segir Guðrún. Miðað við 20 milljóna króna lán merkir 10 prósenta hækkun því að lánið hækkar um rösklega 100 þúsund krónur.