„Hættið að láta ykkur dreyma um þessa evru“

Evrur.
Evrur. mbl.is/Reuters

Snarpar umræður urðu við upphaf þingfundar í dag um gjaldeyrismál og gjaldeyrishöft. Þingmenn Framsóknarflokks gagnrýndu forsætisráðherra fyrir þau ummæli að krónan væri ónothæf og aðeins einn þingmaður ríkisstjórnarflokkanna kom ráðherranum til varnar.

Fyrstur tók til máls um gjaldeyrismálin Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sem benti góðlátlega á að ríkisstjórninni hefði ekki gengið nægilega vel að afnema gjaldeyrishöftin, sem sæist hvað best á því að enn væri verið að herða á þeim. Hann sagði það þó alvarlegast að ekki mætti merkja vilja hjá ríkisstjórninni til að afnema gjaldeyrishöft. Hann lauk máli sínu á því að spyrja þingheim hvort það hjálpaði íslenskum heimilum að tala krónuna niður með þeim hætti sem forsætisráðherra geri.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist efast um að það fyndist forsætisráðherra heillar þjóðar sem færi sömu orðum um eigin gjaldmiðil og Jóhanna Sigurðardóttir. Hann sagði að vandasamt verkefni væri framundan og ef ekkert yrði að gert myndi íslenska þjóðin búa við gjaldeyrishöft næstu áratugi.

Þá sagði Birkir Jón að forsenda þess að losna við höftin væri að krónan myndi ná sér á strik. Hins vegar væri gengið að veikjast og um leið segði forsætisráðherra að krónan væri ónothæf. „Íslensk þjóð á ekki skilið að slík manneskja leiði efnahagslíf þjóðarinnar með þeim hætti.“ Hann sagði ámælisvert að tala á þennan veg og spurði þingmenn Vinstri grænna hvort þeir gætu setið undir því.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka, sagði að gjaldeyrishöftin virkuðu eins og virkjun. Upp söfnuðust eins og uppistöðulón peningar á leið úr landi. Sífellt erfiðara yrði því að standa við skuldbindingar og kostnaður við höftin yrði gríðarlegur. Því væri mjög brýnt að losna við þau sem fyrst.

Getum tengt krónu við evru

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, kom forsætisráðherra til varnar og sagði að Jóhanna hefði einungis lýst þeim veruleika sem Íslendingar byggju við. Einnig nefndi hann að framsóknarmenn yrðu að fara opna augun. Þá benti hann á að ef þjóðin samþykkti aðild að Evrópusambandinu gætum við tengt krónuna við evru, sem væri góður kostur.

Hann sagði jafnframt að hér væri haldið uppi fölsku gengi með höftunum og ef þau væru ekki til staðar myndi krónan falla eins og steinn, með tilheyrandi áhrifum á íslensk heimili.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, minnti Magnús Orra á yfirlýsingar sem hann gaf sumarið 2009. Birgir sagði hann þá hafa verið þeirrar skoðunar að það myndi laga ástandið þegar í stað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með því átti gengið að lagast. Það hefði hins vegar ekki gengið eftir.

Þá kom upp í ræðustól Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og bað Magnús Orra að tala rétt. Með því að skamma framsóknarmenn væri hann í raun og veru að skamma Vinstri græna. Hann benti á að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, væri sá sem talað hefði mest fyrir krónunni.

Guðlaugur sagði að alvara málsins væri sú, að ekki væri verið að ræða hvernig stæði til að aflétta gjaldeyrishöftum. Hann sagði fullkomið stjórnleysi ríkja hvað höftin varðaði, og aðeins nokkrir mánuðir síðan þau voru framlengd. Hann kallaði eftir stefnu ríkisstjórnarinnar og að hún færi að vinna í þessum málum. „Hættið að láta ykkur dreyma um þessa evru.“

Krónur
Krónur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert