Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann í fimm mánaða fangelsi, en skilorðsbundið þrjá mánuði, fyrir kynferðisbrot gegn frænku sinni og vinkonu hennar þegar þær voru 14 ára. Maðurinn tók hátt í hundrað ljósmyndir af stúlkunum nöktum, þar sem þær lágu í ljósabekk, án þeirra vitundar.
Umrædd brot voru framin í apríl eða maí árið 2008. Maðurinn bauð stúlkunum að nota ljósabekkinn og tók svo að minnsta kosti 44 ljósmyndir af annarri stúlkunni og að minnsta kosti 52 myndir af hinni. Á langflestum myndum sáust kynfæri stúlknanna greinilega.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa umræddar myndir í vörslum sínum. Maðurinn játaði brot sitt en hann hefur áður gerst sekur um samskonar brot.
Í niðurstöðu dómsins segir að ekki verið litið framhjá einbeittum brotavilja mannsins við ákvörðun refsingar, þá hafi hann brotið gegn trúnaði stúlknanna tveggja. Hins vegar var það talið manninum til málsbóta að hann hefur leitað sér sérfræðiaðstoðar í því augnamiði að breyta hegðun sinni.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunum hvorri fyrir sig 200 þúsund krónur í miskabætur. Farið var fram á eina milljón króna í bætur en í dóminum segir, að heldur fátækleg gögn hafi legið frammi til stuðnings bótakröfunum, auk þess sem sú upphæð sé ekki í samræmi við dómafordæmi.