„Sértrúarsöfnuður en ekki stjórnmálaflokkur“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Samfylkingin er sértrúarsöfnuður en ekki stjórnmálaflokkur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðu um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Þessu tóku þingmenn Samfylkingarinnar illa og gerði forseti Alþingis í kjölfarið athugasemd við orðalag Sigmundar. 

Meðal þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem komu upp ræðustól vegna ummæla Sigmundar Davíðs var Róbert Marshall sem sagði, að til þess að hægt sé að eiga efnisleg samtöl skipti máli að menn vandi sig í framsetningu þess sem þeir segja. Hann sagði það ekki umræðunni til framdráttar að nota slíkan munnsöfnuð sem Sigmundur Davíð gerði sig sekan um.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði þá athugasemd við fundarstjórn forseta þar sem honum þótti ekki eðlilegt að „stjórnmálaforingi“ grípi til þess ráðs að uppnefna annan stjórnmálaflokk.

Að því sögðu kom Sigmundur Davíð aftur í ræðustól Alþingis og undraðist viðkvæmni þingmanna Samfylkingarinnar. „Ég hélt að Samfylkingin skilgreindi sig svona sjálf og væri ekki eitthvað sem ég fann upp á,“ sagði Sigmundur og bætti við að hann vissi ekki að sértrúarsöfnuður væri svo slæmt orð.

Þá sagði hann að flokksfélagar Samfylkingarinnar hefðu óbilandi trú á ákveðnu fyrirbæri, ef ekki væri um sértrúarsöfnuð að ræða væri þá alla vega viðeigandi að nefna Samfylkinguna söfnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert