Breski Evrópuþingmaðurinn Charles Tannock sagði á Evrópuþinginu í dag að hann teldi að Ísland gæti orðið fyrirmyndar Evrópusambandsríki. Þá sagðist hann vona að ef Ísland gengi í sambandið myndi það fá Norðmenn til þess að gera slíkt hið sama. Frá þessu er greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.
Fram kemur í fréttinni að stækkunarstjóri ESB, Stefan Füle, hafi viðurkennt að skiptar skoðanir væru um aðild að sambandinu á Íslandi en talsmaður Evrópuþingsins í samskiptum við Ísland, Cristian Preda, hafi bætt því við að „íslensku þjóðina skorti upplýsta umræðu um kosti ESB-aðildar.“
Þá segir að samkvæmt síðustu skýrslu ESB yfir árangur Íslands vegna aðildarviðræðnanna séu engar efnahagslegar, pólitískar eða lagalegar hindranir í vegi þess að Ísland geti orðið hluti af sambandinu þó enn sé deilt um makrílveiðarnar.
Ályktun Evrópuþingsins þar sem lýst var yfir stuðningi við aðild Íslands að ESB var samþykkt í þinginu í dag með 596 atkvæðum gegn 52 samkvæmt fréttinni.