Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, segir að ekki hafi verið hægt að áminna Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóra FME, áður en honum var sagt upp vegna þess að hann hefði ekki brotið af sér í starfi.
Aðalsteinn ræddi uppsögn Gunnars í Kastljósi í kvöld. Hann var spurður hvers vegna Gunnari var ekki veitt áminning í samræmi við lög um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna og þannig gefið tækifæri til að bæta sig í starfi. Aðalsteinn sagði að það hefði ekki verið gert vegna þess að Gunnar hefði ekki brotið af sér í starfi heldur mætti rekja málið til atvika sem urðu áður en hann tók við starfi forstjóra FME.
Aðalsteinn sagði Gunnari hefði verið sagt upp störfum vegna viðbragða hans eftir að þetta mál kom upp og eins vegna viðhorfa hans til málsins. Gunnar hefði neitað því að honum bæri að veita upplýsingar um aflandsfélög Landsbankans þegar FME spurði um erlenda starfsemi Landsbankans árið 2001, en Gunnar var þá starfsmaður bankans. Aðalsteinn sagði að lögmenn sem hefðu skilað inn álitsgerðum til FME um þetta mál hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar hefði átt á veita upplýsingar um þessi félög. Viðhorf hans til þessa máls í dag ættu því þátt í uppsögninni.
Aðalsteinn sagði að Gunnari hefði ekki verið sagt upp störfum vegna þess að Gunnar hefði komið upplýsingum um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns til fjölmiðla. Hann sagði að FME hefði látið kanna hvort upplýsingum um fleiri mál hefði verið lekið frá FME, en ekkert benti til að svo hefði verið.