Evran að verða að veikleika

Evrópuþingið í Brussel.
Evrópuþingið í Brussel. Reuters

„Frá því að vera meginröksemdin [fyrir inngöngu í Evrópusambandið] er evran nú að verða að veikleika fyrir stuðningsmenn inngöngu í landinu sem upplifa sig í þeirri erfiðu stöðu að útskýra hvernig sambandið ætli að komast út úr evrukrísunni,“ skrifar Cristian Dan Preda, fulltrúi Evrópuþingsins í samskiptum við Ísland, í pistli á vefsíðu þingflokks síns í gær og bætir við að upphaflega hafi Íslendingar sótt um inngöngu í Evrópusambandið í þeim tilgangi að komast í skjól evrunnar.

Preda segir að fá tæknileg vandamál þurfi að leysa áður en Ísland geti orðið hluti af Evrópusambandinu. Engu að síður séu áskoranir fyrir hendi og nefnir hann meðal annars makríldeiluna í því sambandi og áherslu Íslands á mikilvægi sjávarútvegarins fyrir hagsmuni sína. Makríldeilan sýni „hversu staðráðnir Íslendingar séu að berjast fyrir því sem þeir álíta réttindi þeirra og hagsmuni.“

Hann nefnir einnig Icesave-deiluna í þessu sambandi og segist vona að með því að „greiða allar skuldir sínar“ takist Íslendingum að lægja öldurnar í þeirri deilu áður en niðurstaða fæst fyrir EFTA-dómstólnum í málinu þannig að viðræðurnar um inngöngu í Evrópusambandið geti gengið vel fyrir sig.

Preda segir ennfremur að alltaf hafi verið skiptar skoðanir um inngöngu í Evrópusambandið á Íslandi og að undanfarin sjö ár hafi aðeins ein af 17 skoðanakönnunum sýnt meirihluta hlynntan inngöngu. Þessi eina könnun hafi ekki verið gerð eftir bankahrunið heldur fyrir það.

Hins vegar segir hann að það hafi verið frekar stöðugur meirihluti fyrir því að hefja og síðan halda áfram viðræðuferlinu við Evrópusambandið og vel gæti svo farið að fólk skipti um skoðun í afstöðu sinni til inngöngu eins og hafi gerst í tilfelli Króatíu.

Preda bendir hins vegar að lokum á að kosningaþátttaka sé þó mikið meiri á Íslandi en í Króatíu sem gæti sett strik í reikninginn enda virðist andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið vera betur skipulagðir og vera fulltrúar skilgreindari hagsmuna.

Pistill Cristians Dan Preda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert