Evran raunhæf eftir 2016

Oddný G. Harðardóttir, iðnaðarráðherra á Iðnþingi 2012
Oddný G. Harðardóttir, iðnaðarráðherra á Iðnþingi 2012 Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Oddný G. Harðardóttir ræddi gjaldmiðilsmál á Iðnþingi í dag og sagði Íslendinga geta uppfyllt Maastricht skilyrðin á næsta kjörtímabili og í kjölfarið taka upp evru.

„Gjaldeyrishöftin eru skýr birtingarmynd þess - að íslenska krónan getur ekki talist góður kostur fyrir okkur til framtíðar. Þessi afstaða mín og míns flokks þarf ekki að koma neinum á óvart.   Er ég nú að tala niður krónuna með því að benda á vandamálið?  Er vandi krónunnar kannski bara ímyndarvandi sem leysa mætti með góðu kynningarátaki?  Því miður er það ekki svo,“ sagði Oddný.

„Ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 og með því var að mínu mati kúrsinn tekinn í átt að upptöku Evru - og á þeirri vegferð erum við nú. Allar götur síðan hafa ýmsir aðilar reynt að afvegaleiða umræðuna með ályktunum, skoðanakönnunum og fegurðarsamkeppnum þar sem hinar ýmsu myntir heimsins eru mátaðar við íslenskt efnahagslíf. Fyrst var horft til Noregs eða jafnvel Færeyja. Síðan hafa menn rætt einhliða upptöku Evru eða Kanadadollars og gott ef Ástralíudollar er ekki nýjasta tilboðið. Sænska krónan og ný íslensk króna hafa einnig verið nefndar til leiks.“

Umræðan verður að vera ábyrg og laus við gylliboð

Oddný sagði einnig: „Umræða um gjaldmiðilsmál er að sjálfsögðu holl og nauðsynleg – en að sama skapi verður hún að vera ábyrg og laus við gylliboð.“ Hún ræddi markaðspunkta Arion banka frá í gær þar sem bent var á að vægi Kanadadollars í viðskiptavog Íslands væri um 1,6% og sagði svo: „Evran er hins vegar lang stærsta einstaka myntin í utanríkisviðskiptum Íslands, eða 54% í útflutningi og 30% í innflutningi. Og þá eru ekki teknir með gjaldmiðlar sem eru laus- eða beintengdir við evruna, eins og til dæmis danska krónan.“

„Þess vegna er það mín skoðun að lang farsælast sé að stefna að inngöngu í Evrópusambandið og því samhliða að taka upp evru sem gjaldmiðil. Það er jafnframt von mín og trú að í aðildarviðræðum verði kannað til hlítar hvort mögulegt sé að hraða nauðsynlegu ferli varðandi upptöku evru. Ef við fáum gott veður varðandi þá málaleitan frá Evrópusambandinu og evrópska seðlabankanum - þá erum við um leið komin með þá nauðsynlegu kjölfestu og stöðugleika í gjaldmiðil okkar sem svo sárlega vantar í dag. Ég er þess fullviss að ef við ákveðum að taka skrefið til fulls þá getum við náð þessum áfanga fyrr en seinna,“ sagði Oddný.

Getum uppfyllt Maastricht skilyrðin árið 2016

„Eins og kunnugt er varðar eitt atriði Maastricht skilyrðanna skuldastöðu hins opinbera.  Vegna þess árangurs sem náðst hefur í fjármálum hins opinbera og trúverðugrar áætlunar á því sviði, bendir allt til þess að verg skuldastaða hins opinbera að frádregnum skuldum vegna gjaldeyrisvaraforðans gæti verið komin undir 60% af landsframleiðslu árið 2016.“

Þá sagði Oddný: „Staða ríkisfjármála ætti því ekki að standa í vegi fyrir upptöku evru á næsta kjörtímabili.  Allt er þetta þó háð því að sú aðhaldssama ríkisfjármálastefna til 2015 sem kynnt var í október sl. gangi eftir.  Við verðum að tryggja að svo verði.“

Ræðu Oddnýjar G. Harðardóttur, iðnaðarráðherra, má lesa hér að neðan í heild sinni.

Frá iðnþingi í dag
Frá iðnþingi í dag mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert