Herminjasafn opni á vordögum 2013

Apríl 1959. Bandaríska varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Nato. Almenningur skoðar skriðdreka …
Apríl 1959. Bandaríska varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Nato. Almenningur skoðar skriðdreka á varnarsvæðinu. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Gert er ráð fyrir að sýning um kalda stríðið og sögu herstöðvarinnar á Miðnesheiði opni í nýju herminjasafni í Officeraklúbbnum á vordögum 2013. Þetta kom fram á fundi menningarráðs Reykjanesbæjar fyrr í vikunni.

Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 9. nóvember 2010 í Víkingaheimum í Reykjanesbæ var tilkynnt um uppbyggingu fyrirhugaðs Herminjasafns á Ásbrú. Safninu var fundinn staður í svonefndum Officeraklúbbi, eða byggingu 619, sem áður hýsti, eins og nafnið gefur til kynna, „klúbb“ yfirmanna í herstöðinni.

Kadeco hefur haft umsjón með verkefninu, og undirbúningshópur unnið að því í nokkra mánuði. Í hópnum sitja Sigurgestur Guðlaugsson, Sigrún Kristjánsdóttir, Friðþór Eydal, sem var fjölmiðlafulltrúi Varnarliðsins. Stefán Pálsson sagnfræðingur og fyrir hönd Reykjanesbæjar framkvæmdastjóri menningarsviðs og forstöðumaður byggðasafns.

Samhliða því að hreinsa þurfti út úr húsinu til að skapa rými fyrir safnið var ráðist í endurnýjun á þeim veislusölum sem eru í húsinu, en reynt að halda í það gamla eins og mögulega var hægt. Þá þurfti að skipta um rafmagn í húsinu, skipta um teppi og mála. Einnig voru barir fluttir til. Hugmyndin er að þessa sali verði bæði hægt að leigja út undir ráðstefnur og veisluhöld.

Gert er ráð fyrir 700 fermetra safni og að hægt verði að koma fyrir tímabundnum sýningum með því. Eins og áður segir verður fyrsta sýningin um kalda stríði og sögu herstöðvarinnar á Miðnesheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert