Klofinn Sjálfstæðisflokkur í Kópavogi?

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs segja Sjálfstæðisflokkinn í bænum klofinn og nýleg fjölgun fulltrúafjölda í þremur nefndum sé til að tryggja báðum fylkingum flokksins mann í nefndunum.

Tekist var um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi, en þá lagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna, fram tillögu um breytingar á bæjarmálasamþykkt.

Meðal annars var samþykkt að stofna atvinnu- og þróunarráð og lista- og menningarráð í stað menningar- og þróunarráðs. Einnig var samþykkt að fjölga fulltrúum í þremur nefndum úr fimm í sjö.

Ólafur Þór Gunnarsson, fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn, sagði breytingarnar ótímabærar og ekki hafi komið fram rök sem kalli á þær, enda hafi verði gerðar breytingar snemma á síðasta ári. „Menningar- og þróunarráð hefur enn ekki fengið tækifæri til að starfa í gegnum heila fjárhagsáætlun og reynsla því lítil. Þó að í sjálfu sér megi skoða það að fjölga í tilteknum nefndum vaknar sú spurning hvort tilgangurinn sé aðallega að tryggja báðum fylkingum Sjálfstæðisflokksins mann í þeim nefndum,“ segir í bókun Ólafs.

Þá benti Ólafur á að ekki væri gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun að þenja út nefndarkerfið með tilheyrandi kostnaði. Undir þetta tók Hjálmar Hjálmarsson, fulltrúi Næst besta flokksins.

Meirihluti myndaður úr fjórum framboðum

Pétur Ólafsson, fulltrúi Samfylkingar, sagði erfitt að sjá rökin fyrir breytingum meirihlutans, ekki síst þar sem meirihlutinn eigi að vera samsettur úr þremur framboðum sem hvert á sinn fulltrúa í öllum fimm manna nefndum bæjarins. „Hér er augljóslega verið að koma fulltrúum beggja flokksbrota Sjálfstæðisflokksins að nefndarstarfi bæjarins. Öllum er ljóst hve klofinn Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi er gagnvart þessum tveimur leiðtogum flokksins, litlir kærleikar eru milli þessara tveggja fylkinga eins og glögglega hefur mátt lesa af málflutningi þessara hópa.“

Að endingu segir Pétur að ljóst megi vera, að sá meirihluti sem starfi í Kópavogi sé í raun myndaður úr fjórum flokkum; Lista Kópavogsbúa, Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki Gunnars Birgissonar og Sjálfstæðisflokki Ármanns Kr. Ólafssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert