Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um skaðabótaskyldu fyrirtækis vegna áverka sem starfsmaður þess varð fyrir við vinnu. Rétturinn taldi fyrirtækið skaðabótaskylt og að maðurinn eigi rétt til bóta úr slysatryggingu þess.
Maðurinn var við vinnu 17. og 18. mars 2010 við löndun á frosnum fiski úr frystitogurum. Maðurinn lauk störfum upp úr hádegi 18. mars og leitaði þá á Slysa- og bráðadeild Landspítalans vegna mikilla verkja í fingrum. Kom í ljós kal á þremur fingrum vinstri handar og tveimur á þeirri hægri.
Var haft eftir manninum að hann hafði unnið við löndun daginn áður í 25 stiga frosti í tólf tíma og verið með mikla verki í fingrum að kvöldi þess dags. Hann hafi hafið störf aftur að morgni og fundið fyrir verkjum um hádegið.
Eftir viðeigandi læknismeðferð var í aðgerð 27. apríl 2010 tekinn af hluti löngutangar vinstri handar og einnig tekið af beini fjærkjúku beggja baugfingra og hægri löngutangar. Þá var gerð yfirborðshreinsun á tám og fjarlægð nögl af tá hægri fótar. Önnur aðgerð var gerð 22. júní 2010 og báðar löngutengur styttar lítillega.
Í dómi Hæstaréttar segir að maðurinn hafi ráðið sig tímabundið til starfa, og honum hafi ekki verið gerð sérstaklega grein fyrir þeirri hættu sem gæti fylgt því að vinna í miklum kulda.
Þá voru áhöld um hvaða vettlinga maðurinn notaði þann dag sem hann kól. Verkstjóri viðurkenndi að hann hefði ekki gætt þess sérstaklega eða fylgt eftir að maðurinn notaði viðeigandi vettlinga, en sjálfur fullyrti maðurinn að honum hafi verið látnir í té loðfóðraðir gúmmívettlingar. Starfsmaður fyrirtækisins, sem gaf skýrslu, bar við að slíkir vettlingar væru ekki notaðir í frystilestum þar sem þeir geri þar ekkert gagn.
Í vottorði sérfræðings í handarskurðlækningum kom fram, að án efa hefði maðurinn fundið jafnt og þétt fyrir eðlilegum áhrifum þess að vinna í svo miklu frosti, svo sem fölva í húð, dofa og sársauka. Að einhverjum tíma liðnum, þegar kalið náði niður í dýpri vefi, sé sennilegt að sársaukinn hafi minnkað eða horfið á því svæði.
Að mati læknisins var ómögulegt fyrir manninn að gera sér grein fyrir því hvenær kuldi var að breytast yfir í kal og klingi engar viðvörunarbjöllur við slíkt. Séu umskiptin úr kulda yfir í kal því óvænt og ekki fyrirsjáanleg frekar en þegar skurður verður við vinnu með hníf.