Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari flutti mál sitt gegn Geir H. Haarde í Landsdómi í dag. Sigríður lagði áherslu á að ekki sé reynt að halda því fram að Geir hafi getað afstýrt hruninu, enda sé hann ekki ákærður fyrir það, heldur fyrir að hafa ekki brugðist við eins og honum bar.
Sigríður sagði m.a. að öll viðvörunarljós hefðu logað snemma árs 2008 en ekki verið brugðist við þeim. Vegna menntunar Geirs og reynslu sé hægt að gera ríkari kröfur til hans en auk þess hafi hann verið verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Því hafi frumkvæðisskylda hvílt á herðum Geirs að grípa til aðgerða, hann hafi ekki átt að „sitja og bíða“.
Farið var fram á að Geir verði sakfelldur og honum refsað. Mbl.is tísti jafnóðum um málflutninginn meðan hann stóð yfir í dag, í 129 færslum sem lesa má hér að neðan. Færslurnar birtast í öfugri tímaröð, þ.e. fyrsta færslan er neðst en sú nýjasta efst.
(Málflutningi saksóknara lokið)
Málflutningi í dag er lokið. Verjandi flytur sitt mál kl. 9 í fyrramálið.
Hansen hlaut 4 mánaða dóm skilorðsbundinn til eins árs.#landsdomur
Refsiramminn er 2 ár. Saksóknari nefndi sem nærtækasta fordæmið dóminn yfir danska ráðherranum Erik Ninn-Hansen árið 1995#landsdomur
Hinsvegar megi hugsanlega vega til refsilækkunar hve langt er liðið síðan brotin voru framin og að ákærði hafi hreina sakaskrá#landsdomur
Saksóknari segir ekki auðvelt að nefna ákveðna tölu, mánaðafjölda, um lengd refsingar enda sé ekkert dómafordæmi #landsdomur
Saksóknari telur að við ákvörðun refsingar beri að líta til þess að vanræksla ákærða var stórfelld #landsdomur
Saksóknari segir að fyrningarfrestur brotanna hafi verið rofinn.
Saksóknari telur blasa við að sakfella eigi ákærða „með vísan til þess sem hér hefur verið reifað um vanrækslu hans“ #landsdomur
Alveg burtséð frá því hvernig málum var háttað í Samfylkingunni. Viðskiptaráðherra gat ekki sinnt nauðsynlegum verkefnum án upplýsinga.
Ákærði var verkstjóri í ríkisstjórninni og bar skylda til að halda viðskiptaráðherra upplýstum, segir saksóknari.
Um þetta er hinsvegar ekkert fjallað á ríkisstjórnarfundum fyrr en 30. september, segir saksóknari.
Því ljóst að Geir hafi sem forsætisráðherra borið skylda til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Frá því verði ekki komist.
Ekkert sem bendir til þess að þetta ákvæði sé einhver forneskja sem hafi dagað uppi í stjórnarskrá. Ákveðið af ástæðu að halda því inni.
Þ.e.a.s. ákvæði í stjórnarskrá. Segir ekki tilviljun að ákvæðið um skyldur fors.ráðherra hafi haldist inni óbreytt frá lýðveldisstofnun.
Saksóknari fer yfir Alþingistíðindi þar sem fjallað er um ákvæði um að fors.ráðherra beri að taka upp mikilvæg stjórnarmálefni á ráðherrafundum.
Saksóknari: Það er bara ekki verið að fjalla um bankana eða vandamálin sem eru aðsteðjandi, á ríkisstjórnafundum.
Saksóknari: Það hefði kannski verið heppilegt að hann hefði verið með í ráðum og fengið að vita a.m.k. jafnmikið og hinir.
Það voru fleiri í þessari ríkisstjórn en ákærði og ISG. T.d. viðskiptaráðherra, segir saksóknari.
frh. þá er ljóst að möguleikar á því að afstýra tjóninu á yfirvofandi fjármálaáfalli eru minni. Orð eru jú til alls fyrst, segir saksóknari.
Ef ekki er haldinn fundur um vandann, hann ekki tekinn formlega á dagskrá og ekki verið að ræða þetta nema í spjalli í upphafi fundar (frh.)
Saksóknari: Það er ekki hægt að flokka bankana öðruvísi en sem mikilvæg stjórnarmálefni sem þarf að taka fyrir og ræða. #landsdomur
Saksóknari segir að Geir hafi borið skylda til að ræða vanda bankanna á ráðherrafundum. Málin verði ekki mikið stærri en það. #landsdomur
Saksóknari: Það þarf kannski ekki alltaf að vera eitthvað stórkostlega flókið sem stjórnvöld gera þegar þau beita sér í málum sem þessum.
Saksóknari: Það hvíldi skylda á herðum ákærða. Hann átti t.d. ekki að bíða eftir að formaðu FME hringdi í hann. Átti ekki að sitja og bíða.
Saksóknari fer yfir atburðarásina varðandi Icesave í Bretlandi haustið 2008 og að Geir hafi ekki beitt sér eins og honum bar í því máli.
Saksóknari bætir við: Spurning hvort þeir gátu það samt?
Saksóknari vísar í orð Davíðs Oddssonar á fundi með Landsbankastjórum 31. júlí 2008: „Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota“.
Ljóst í júlí 2008 að ferlið á flutningi í dótturfélög sé ekki hafið og Landsbankinn virðist ekki mjög tilleiðanlegur í þessu ferli.
Saksóknari: Þarna var ljóst að ríkissjóður gæti orðið fyrir gríðarlegu tjóni og menn vissu það auðvitað allan tímann. #landsdomur
Saksóknari segir að það hafi verið á miðlungs- eða langtímaáætlun að færa Icesave í dótturfélög. Hefði verið ágætt að einhver ýtti við þeim.
Saksóknari ætlar ekki að fara ítarlega yfir samskipti FME, FSA og Landsbanka. „Það væri til að æra óstöðugan“.
Í mars kom fram að Bank of England teldi innlánasöfnunina í Bretlandi notaða til að fjármagna öran vöxt bankans á Íslandi. Ljóst að svo var.
Fjöldi áhorfenda hefur u.þ.b. helmingast frá því málflutningur hófst kl. 13. #landsdomur
Snemma árs 2008 hafi áhyggjur breskra stjórnvalda farið að vaxa mjög og íslensk stjórnvöld haft ávinning af því þótt lítið væri aðhafst.
Saksóknari segir að tjónshættan af Icesave reikningunum hafi verið til staðar og hættan á áhlaupi á bankann sem hefði leitt til falls hans.
Saksóknari: Víkur nú sögunni að Icesave reikningunum í Bretlandi. #landsdomur
Hlé er nú gert í 15 mínútur áður en næsti ákæruliður er tekinn fyrir.
Saksóknari segir að „eftir-á speki“ eigi ekki við í þessu máli. #landsdomur
Tryggvi Pálsson nefndi fyrir dómnum að það hefðu verið leiðir til að gera bönkunum lífið leitt ef þeir færu ekki eftir því sem var krafist.
Allt árið 2008 hafi verið að skapast neyðarástand á Íslandi þar sem meiri hagsmunir voru í húfi en hagsmunir einstaks banka.
Saksóknari: Ákærði hefur fyrst og fremst skyldur við íslenskt samfélag, umfram bankana. #landsdomur
Saksóknari segir að vörn Geirs í þessum lið virðist snúast um einhvern ómöguleika, en þetta hafi ekki verið ómögulegt.
Ákærða Geir Haarde bar að fullvissa sig um að slíkt væri gert með því að eiga frumkvæði að aðgerðum ríkisins.
Saksóknari: Þegar þetta allt er skoðað er ljóst að það hefði verið hægt að ná árangri með sölu eigna.
Ef það hefði verið gert, „Þá vitum við ekki hvert framhaldið hefði orðið á þessum ósköpum öllum saman“, segir saksóknari.
Sérstaklega, segir saksóknari, ef ferlið hefði byrjað í ársbyrjun þegar áhyggjur voru þegar byrjaðar að vakna og tími var til stefnu.
Saksóknari: Hefði nú verið gustukaverk af hálfu stjórnvalda að sjá til þess að þessi banki gæti staðið undir stóra gjalddaganum í október.
Glitnismenn hafi hinsvegar reynt. Með löngum fyrirvara voru áhyggjur af stóra gjalddaga Glitnis í október 2008 en lítið gert.
Saksóknari segir að Landsbankamenn virðist lítið hafa reynt að selja Heritable bankann, sem þó var seljanleg eign.
Saksóknari: Þannig að það verður ekki séð að þetta spjall um að draga úr stærð bankanna hafi skilað miklu, sérstaklega ekki v/Landsbankans.
Saksóknari segir að þessar umræður hafi allar verið á forsendum bankanna, ekki vegna hagsmuna íslenska ríkisins. #landsdomur
Saksóknari: Það er alveg ljóst að enginn benti á neinar formlegar aðgerðir. Í aðalatriðum virðist bönkunum hafa verið þetta í sjálfsvald sett.
Saksóknari: En það ber allt að sama brunni, að í besta falli hafi einhver samtöl átt sér stað, þar sem kom fram vilji til að gera eitthvað.
Saksóknari: Við höfum heyrt fyrir dómnum framburð fjölda vitna og ákærða sjálfs um þessa vinnu að flytja bankana úr landi. #landsdomur
Saksóknari: Orðalagið er ekki harkalegra en það (þegar ákærði víkur að stærð bankanna fyrri hluta árs 2008).
Hinsvegar virðist það einkenni á máli Geirs á þessum tíma að því sé beint til bankanna að líta í eigin barm og gera þetta sjálfir.
Sigríður fer yfir það að ákærða hafi verið stærð bankakerfisins ljós framan af ári 2008, það var rætt á fundum m.a. með ISG og SÍ.
Saksóknari: Á fundi með Gordon Brown kom fram í máli ákærða að bankarnir væru orðnir „nokkuð stórir“, ekki þannig að það væri vandamál.
Saksóknari segir ekki að sjá að bönkunum hafi verið sagt að draga úr stærð sinni í upphafi árs 2008.
Helgi Magnús varasaksóknari lygnir aftur augunum. Hann er kannski að safna kröftum þar til kemur að honum að flytja mál sitt. #landsdomur
Saksóknari: Þá hefði verið tilvalið fyrir þá að drífa sig úr landi í stærra hagkerfi, okkar hinna vegna. #landsdomur
Saksóknari segir Landsbankann hafa litið þetta öðrum augum, að smæð íslenska hagkerfisins hafi verið vandinn, ekki stærð bankanna. #landsdomur
Sigríður segir að stjórnvöld hafi viljað byggja upp alþjóðlega fjármálastarfsemi hér. Fjallað er um hættuna sem fólst í stærð bankakerfisins.
Saksóknari snýr sér að næsta ákærulið, 1.4. Hún segir íslensk stjórnvöld hafi sofið á verðinum.
Saksóknari spyr hvort of snemmt sé að gera hlé á málflutningi. „Frekar snemmt“, svarar dómforseti sem hefur haft bestu yfirsýn á tímann hér.
Saksóknari segir að því sé ekki haldið fram að hægt hefði verið að bjarga bönkunum, en það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir. #landsdomur
Saksóknari: En þetta bjargaðist. Sem betur fer. #landsdomur
Saksóknari segir að upplausnarástand hafi ríkt um Glitnishelgina vegna þess að menn höfðu ekki þau tæki sem þurftu v/ skorts á undirbúningi.
Það er mat sækjanda að vinna hópsins var ekki markviss og skilaði ekki tilætluðum árangri. #landsdomur
Helgi Magnús varasaksóknari glottir yfir þessum orðum Sigríðar. Hann hnýtti talsvert í Tryggva Þór í vitnaleiðslunum. #landsdomur
Sigríður: Það var ekki vitað neitt um krosseignatengsl. Enginn nema Tryggvi Þór Herbertsson sem virðist hafa vitað mest af öllum. #landsdomur
Sigríður: Þannig að það er nokkuð ljóst að það lá ekki fyrir nein viðlagaáætlun um Glitnishelgina. #landsdomur
Þau ákvæði neyðarlaganna sem mestu máli skiptu þegar upp var staðið komu inn á síðustu metrunum, ekki frá samráðshópnum. #landsdomur
Sigríður segir að neyðarlögin hafi verið samin helgina 4.-6. október undir mikilli pressu og í raun ekki byggt á vinnu samráðshópsins.
Saksóknari: Og allan tímann verið að kalla eftir ákvarðanatöku stjórnvalda til að hópurinn gæti unnið sína vinnu. Kom aldrei.
Saksóknari bendir á að í samráðshópnum hafi verið fjallað um mjög alvarlega stöðu bankakerfisins allt frá 15. nóvember 2007.
Saksóknari: Starf þessa hóps getur ekki orðið markvisst ef þeir sem verið er að vinna fyrir gefa aldrei neitt frá sér um hvað þeir vilja.
Saksóknari bendir á að ráðherrar hafi aldrei fundað með samráðshópnum, sem þó var eini hópurinn sem vann svona vinnu fyrir stjórnvöld.
Sigríður vísar í vitnisburð Árna Mathiesen fyrir dómnum máli sínu til stuðnings um ómarkvissa vinnu samráðshópsins.
Sigríður: Það var einhvern veginn aldrei hægt að klára þetta, var aldrei fullgert því það skorti stefnu stjórnvalda. Fengust engin svör.
Saksóknari: Ljóst á framburði vitna fyrir dóminum að vinna samráðshópsins var alls ekki markviss, skilaði ekki tilætluðum árangri. #landsdomur
Saksóknari telur upp hverja viðvörunarbjölluna af annarri sem klingdi og aðgerðir sem rætt var um, en ekki framkvæmdar. #landsdomur
14. júlí kemur fram hjá samráðshópi að ekki væri seinna vænna en að ganga frá stefnumörkun stjórnvalda.
Rætt hafi verið um það á sama tíma í mars að skipa starfshópa um yfirvofandi hættu, en það var ekki gert.
Geir fékk bréf frá Jóni Steinssyni hagfræðingi í 20. mars 2008 þar sem vakið var máls á því að gera þyrfti einhverja áætlun.
Ekki fáist hinsvegar séð að Geir hafi kallað eftir hugmyndum í kjölfarið. Fékk tillögurnar en ýtti ekki eftir að farið yrði lengra með þær.
Saksóknari vísar í ítarleg skjöl sem unnin voru á vettvangi FME og SÍ eftir tillögum sérfræðingsins Andrew Gracie.
Hópur af ungu fólki fór nú úr salnum með talsverðum skarkala og truflun. Dómforseti fylgdi þeim þungbrýndur eftir með augunum. #landsdomur
Þáttaskil urðu í hópnum haustið 2007 þegar ljóst var að mikil hætta vofði yfir bönkunum. Funduðu mun meira eftir það en lagt var upp með.
Þess vegna hefði þar átt að gera heildstæða greiningu á áhættu ríkisins vegna starfsemi bankanna, til að leggja grundvöll að viðbúnaðaráætlun.
Saksóknari segir að samráðshópurinn hafi verið eini vettvangurinn þar sem skipulögð vinna var unnin vegna yfirvofandi hættu.
Saksóknari hefur nú farið yfir sviðið og ætlar að víkja sér að einstökum ákæruliðum.
Saksóknari vísar í Drög að efnahagstillögum frá Tryggva Þór Herbertssyni 14. sept. 2008. Það hafi verið fyrstu tillögur sem Geir leitaði eftir.
Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari hallar sér til hliðar og skoðar fornar bækur í útstillingarskápum Þjóðmenningarhússins. #landsdomur
Fundur Björgvins G. með Alistair Darling er að því er best fæst séð fyrstu formlegu aðgerðir í málinu á pólitískum vettvangi, 2. sept. 2008.
Saksóknari segir að allir hafi í raun gert sér grein fyrir því frá upphafi hvílíkt glapræði söfnun Icesave innlánanna í Hollandi væri.
Þá hafi komið fram að hollensk stjórnvöld teldu Ísland ábyrgt fyrir a.m.k. einhverju lágmarki innistæðna. Samt engar aðgerðir í kjölfarið.
19. ágúst hafi hollensk stjórnvöld spurt hvort kannað hafi verið hvers tryggingasjóðurinn væri megnugur ef t.d. einn íslenskur banki félli.
Ísl. yfirvöld hafi gefið mjög óljós og loðin svör. Þá hafi verið búið að bóka að Landsbankinn virtist draga flutning Icesave í dótturfélög
Saksóknari segir að í ágúst hafi bresk stjórnvöld reynt, eðlilega, að fá skýrar línur um afstöðu stjórnvalda til ábyrgðar tryggingasjóðs.
Saksóknari ræðir um starf samráðshópsins sumarið 2008 þar sem fjallað hafi verið um mögulegt fall bankanna en vantað markvissari stefnu.
Geir eigi að hafa bæði menntun og reynslu til að lesa slík skjöl og skilja.
Tryggvi notaði það orðalag að það hefði verið „rauð píla niður á við“ sem ætti að segja allt sem segja þarf og saksóknari vitnar í þetta.
Tryggvi Pálsson benti líka á að allt frá 2003 kom fram frá SÍ að staða bankanna stæði í stað eða hefði versnað, aldrei batnað.
Í ritinu hafi verið varað við stöðunni eins mikið og seðlabanki gæti gert án þess að valda sjálfur tjóni. Tryggvi Pálsson hafi bent á þetta.
Saksóknari segir að Geir geti ekki skýlt sér á bak við það að í riti SÍ um Fjármálastöðugleika í maí 2008 hafi allt verið sagt í góðu lagi.
Þessu tilboði hafi ekki verið svarað og ekkert frekar aðhafst annað en að þrýsta á King að endurskoða höfnun gjaldeyrisskiptasamnings.
Saksóknari bendir á að Geir hafi samdægurs fengið afrit af bréfi Mervyn King þegar hann bauð fram aðstoð við að draga úr stærð bankakerfisins.
Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún hafi fundað með seðlabankastjóra í kjölfarið um gjaldeyrisforðann og lánalínur en ekkert frekar aðhafst.
Saksóknari vísar í bréf Davíðs Oddssonar til evrópskra seðlabanka 15. apríl 2008 þar sem óskað var eftir gjaldeyrisskiptasamningum.
Saksóknari vísar í að aðför hafi verið gerð að krónunni í mars 2008. Slík aðför hljóti að teljast alvarleg en ekkert hafi verið aðhafst.
Hinsvegar segir saksóknari að ekki verði ráðið að hann hafi framkvæmt neina sjálfstæða athugun á málinu um hvort eitthvað væri aðhafst.
Engar ákvarðanir hafi verið teknar af stjórnvöldum byggt á því skjali og Geir vísað í að hann treysti sjálfstæðum stofnunum til þess.
Saksóknari vísar í skjalið Úrræði stjórnvalda vegna óróleika á fjármálamörkuðum, sem byggði á tillögum sérfræðingsins Andrew Gracie
Á fundi 14. febrúar hafi komið fram upplýsingar um „svimandi upphæðir“ sem yrðu brátt á gjalddaga hjá bönkunum.
Saksóknari vitnar til vonbrigða Davíðs Oddssonar með viðbrögð Geirs Haarde eftir fund þeirra 7. febrúar 2008. #landsdomur
Saksóknari vitnar í mat Moody's á stöðu íslensku bankanna í janúar 2008 og að á sama tíma hafi seðlabankinn lýst áhyggjum af stöðunni.
Saksóknari segir að fjölmörg viðvörunarljós hafi blikkað og ljóst hafi verið að bankarnir væru í meiri hættu 2007 en fyrir míníkrísuna 2006.
Saksóknari segir að Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn hafi verið kerfislega mikilvægir bankar og ríkissjóði stafað ógn af falli þeirra.
Sigríður segir að í ljósi menntunar Geirs og reynslu sé hægt að gera ríkari kröfu til þess að hann hefði átt að bregðast við. #landsdomur
Hinsvegar hafi Geir haft vitund af hættunni sem vofði yfir og ekki brugðist við eins og honum bar. #landsdomur
Sigríður segir að ekki sé reynt að halda því fram að ákærði hefði getað afstýrt hruninu. #landsdomur
Saksóknari gerir kröfu um að Geir verði sakfelldur og dæmdur til refsingar. #landsdomur
Markús Sigurbjörnsson staðfestir að gagnaöflun í málinu gegn Geir Haarde sé lokið. Saksóknari tekur til máls. #landsdomur
Salur Þjóðmenningarhússins er þétt setinn í dag og virðist í fljótu bragði skipað í öll sæti. #landsdomur
Í stað vitnasætisins hefur nú verið komið fyrir pontu í miðjum salnum þar sem saksóknari kemur sér nú fyrir. #landsdomur
Saksóknara gekk erfiðlega að opna töskuna sína með málsgögnunum en það hafðist á endanum og ætti þinghald því að geta hafist. #landsdomur
Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari flytur mál sitt í dag en Andri Árnason verjandi Geirs á morgun. #landsdomur
Fyrri málflutningsdagur í réttarhöldunum yfir Geir Haarde er nú að hefjast. #landsdomur