Mikil mannfyrirlitning felst í skrifum Þóru Tómasdóttur, ritstjóra Nýs lífs, um samskipti Jóns Baldvins Hannibalssonar og unglingsstúlku, að mati Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldvins. „Og ekki bara mannfyrirlitning - heldur aðallega kvenfyrirlitning, sem hittir þá fyrir, sem síst skyldi.“
Bryndís ritar aðsenda grein í Fréttatímann sem kemur út á morgun. Þar segist hún vilja leiðrétta nokkrar rangfærslur „sem haldið er fram í ákæruskjali Þóru Tómasdóttur á hendur okkur í Nýju lífi“. Meðal þess sem hún spyr í grein sinni er hvort ritstjóra Nýs lífs leyfist að traðka á persónu sinni, um leið og hún upphefji sjálfa sig. „Að halda því fram fullum fetum, að ég hafi búið í meira en hálfa öld með barnaníðing mér við hlið (líklega án þess að hafa hugmynd um það - eða hvað?) er ekki bara lítilsvirðing við mig. Það er bull og þvaður. Hreint út sagt - uppspuni.“
Hún vísar til bréfs sem Jón Baldvin sendi systurdóttur hennar, það sem málið snýst helst um. „Í því birtast hin vítaverðu afglöp JBH, burtséð frá því, hvort bréfsending geti varðað við lög eða ekki. Hvað gerir maður, sem hefur gert sig beran að slíkum dómgreindarbresti? Ef hann er ærlegur maður, þá viðurkennir hann brot sitt og þrætir ekki fyrir það. Hann skammast sín og iðrast gerða sinna. Hann biðst fyrirgefningar. Hann býðst til að gera allt, sem í hans valdi stendur til að bæta fyrir brot sitt, svo að unnt sé að ná sáttum. Allt þetta gerði JBH - en hefur komið að lokuðum dyrum í meira en áratug.“
Þá segist Bryndís hafa skilið samhengi hlutanna þegar hún las á einum stað í viðtalinu að systurdóttir hennar vitnaði „um það, að dóttir mín hafi „staðið með sér eins og klettur“. Ég viðurkenni, að þegar ég las þessi tilvitnuðu orð fór um mig ískaldur hrollur. Mér rann kalt vant á milli skinns og hörunds. [...] Þetta skýrir reyndar margt, sem ella leynist undir yfirborðinu.“
Undir lok greinar sinnar segir Bryndís svo: „Það er ljótt að færa sér í nyt fjölskylduharmleik annarra í því skyni að koma höggi á einhvern, sem manni er í nöp við, af hvaða ástæðum sem það kann að vera. Það er reyndar meira en ljótt. Það er mannvonska.“