Sakfelling Geirs blasi við

Sigríður Friðjónsdóttir flutti mál sitt í ræðupúlti Landsdóms í dag.
Sigríður Friðjónsdóttir flutti mál sitt í ræðupúlti Landsdóms í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Málflutningi Sigríðar Friðjónsdóttur saksóknara í málinu gegn Geir H. Haarde fyrir Landsdómi er lokið í dag. Sigríður flutti mál sitt í þrjár klukkustundir með hléi. Hún sagði blasa við að sakfella ætti Geir.

Erfiðara væri hins vegar að fara fram á ákveðna þyngd refsingar þar sem dómafordæmi vantaði. Refsiramminn fyrir þau brot sem Geir er ákærður fyrir er tvö ár. Saksóknari sagði að hugsanlega mætti meta það honum til refsilækkunar hve langur tími er liðinn síðan brotin voru framin og jafnframt að hann sé með hreint sakavottorð.

Við ákvörðun refsingar þyrfti hins vegar að líta til þess að vanræksla ákærða væri stórfelld. Sigríður nefndi sem nærtækasta dæmi fangelsisdóm yfir danska ráðherranum Erik Ninn-Hansen, en hann var árið 1995 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til eins árs.

Á morgun klukkan níu flytur Andri Árnason, verjandi Geirs, sitt mál og áætlar hann að tala í um þrjár klukkustundir. Eftir hádegi gefst saksóknara og verjanda svo tækifæri til andsvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert