Saksóknari: Geir gerði ekki nóg

Þjóðmenningarhúsið þar sem Landsdómur fer fram.
Þjóðmenningarhúsið þar sem Landsdómur fer fram. mbl.is/Hjörtur

Engar formlegar aðgerðir voru í gangi í aðdraganda bankahrunsins til þess að fá bankana til þess að selja eignir eða flytja höfuðstöðvar sínar úr landi í aðdraganda bankahrunsins. Í besta var um að ræða samtöl um að vilji væri til þess og vinsamleg tilmæli en að öðru leyti var bönkunum í sjálfsvald sett hvernig haldið væri á þeim málum.

Þetta kom fram í málsflutningi Sigríðar J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, fyrir Landsdómi í dag. Þannig sagði hún að ekki væri að sjá að Landsbanki Íslands hafi haft uppi neina tilburði til þess að selja eignir meðal annars í ljósi þess að bankinn hafi hafið söfnun innlána í Hollandi í maí 2008. Hún sagði „með ólíkindum“ að stjórnvöld skyldu ekki hafa séð sér fært að bregðast við því.

Sigríður sagði að svo virtist sem að „þetta spjall“ hafi skilað miklum árangri. Hún sagði ljóst að Landsbankinn hafi átt eignir sem hægt hafi verið að selja á ásættanlegu verði. Þannig hafi fyrirtæki í hans eigu verið seld skömmu eftir bankahrunið haustið 2008 á ágætu verði. Ýmislegt hafi verið hægt að gera ef vilji var til þess.

Þá sagði hún að töluverður aðdragandi hafi verið vegna stórs gjalddaga sem Glitnir þurfti að standa við haustið 2008 sem varð til þess að bankinn var tekinn yfir af ríkinu. Stjórnvöld hefðu því haft tækifæri til þess að sjá til þess að bankinn gæti staðið undir þeirri skuldbindingu sinni. Stjórnvöld hefðu að sama skapi getað þrýst á Kaupþing að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.

Þegar allt væri skoðað hefði mátt ná árangri við sölu eigna eða flutnings höfuðstöðva úr landi. Hún sagði að Geir hafi borið að fullvissa sig um að reynt væri að ná árangri í þessum efnum. Honum hafi borið skylda til þess en ekki gert nóg í þeim efnum að mati saksóknara. Hann hefði þurft að kalla eftir einhverjum hugmyndum, setja fram kröfur og ekki láta bara bankana hafa hlutina alveg eftir eigin höfði. Ekkert hafi verið gert í þá veruna.

Gaf hún lítið fyrir þann málflutning að menn hefðu haft áhyggjur af því að áhlaup yrði gert á bankana og sagði meira í húfi en hagsmuni eins banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert