Skilaði sér ekki í neyðarlögunum

Saksóknari Alþingis Sigríður J. Friðjónsdóttir, varasaksóknari Helgi Magnús Gunnarsson og …
Saksóknari Alþingis Sigríður J. Friðjónsdóttir, varasaksóknari Helgi Magnús Gunnarsson og verjandi Geirs Andri Árnason. mbl.is/Hjörtur

Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika sem starfaði í aðdraganda bankahrunsins var eini vettvangurinn þar sem verið var að vinna einhverja undirbúningsvinnu ef illa færi í íslenska fjármálakerfinu. Þetta kom fram í málflutningi Sigríðar J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, fyrir Landsdómi í dag.

Hún sagði að samráðshópurinn hefði átt að vinna einhverja greiningu á stöðunni þar sem dregnar hefðu verið upp ýmsar sviðsmyndir og hvað þær þýddu fyrir ríkið sem aftur hefði verið forsenda þess að hægt væri að setja saman viðbúnaðaráætlun.

Fram kom hjá Sigríði að rætt hafi verið ítrekað um það innan samráðshópsins að setja saman slíka áætlun en það hafi hins vegar aldrei orðið af því. Þetta hafi verið „ákaflega erfið fæðing.“ Skiptar skoðanir hafi verið innan hópsins um það með hvaða hætti hann ætti að beita sér og þá hafi verið ótti innan hans við að setja fjármálakerfið í uppnám.

Sigríður sagði að vinna samráðshópsins hafi verið ómarkviss og einkum vegna þess að það hafi skort aðkomu stjórnvalda. Engin svör hafi fengist frá þeim um það til hvers þau ætluðust af hópnum og hverju hann skilaði af sér. Ráðherrar hafi aldrei sest yfir gögn frá hópnum og mótað einhverja stefnu út frá þeim. Hún sagði að það hafi verið á ábyrgð Geirs sem forsætisráðherra að sjá til þess að vinna samráðshópsins skilaði árangri.

Þá lagði Sigríður áherslu á að gögn málsins sýndu að ekki væri hægt að segja að vinnan innan samráðshópsins hafi skilað sér í neyðarlögunum sem sett voru þegar bankahrunið skall á. Sú vinna hefði fyrst og síðast farið fram um helgina fyrir hrunið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert